Erlent

Maduro úti­lokar ekki að borgara­stríð brjótist út

Atli Ísleifsson skrifar
Nicolas Maduro hefur gegnt embætti forseta Venesúela frá árinu 2013.
Nicolas Maduro hefur gegnt embætti forseta Venesúela frá árinu 2013. epa
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, segist ekki geta útilokað að borgarastríð brjótist út í landinu en þrýstingur um að hann segi af sér eykst nú með hverjum deginum.

Í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi varaði hann Donald Trump Bandaríkjaforseta við að styðja við bakið á stjórnarandstöðunni í landinu og sagði að forsetinn myndi ata Hvíta húsið blóði, skerist hann í leikinn í landinu.

Maduro hafnaði einnig afarkostum Evrópusambandsins sem höfðu gefið forsetanum frest til sunnudags til að boða til nýrra forsetakosninga. Greint var frá því í morgun að stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Spáni og Svíþjóð hafi öll viðurkennt Juan Gaídó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem lögmætan forseta landsins til bráðabirgða.

Bandaríkin og fjölmörg önnur Ameríkuríki hafa lýst yfir stuðningi við Guaídó og segja hann réttmætan leiðtoga landsins í ljósi þess að kosningarnar sem fram fóru í fyrra og Maduro vann, hafi verið gallaðar.

Evrópusambandið hafði ekki gengið svo langt að lýsa stuðningi við Guaídó, en krafðist þess að nýjar kosningar færu fram. Þessu hafnar Maduro alfarið.


Tengdar fréttir

Allt útlit fyrir að Evrópuríki viðurkenni Guaidó sem forseta

Fastlega er gert ráð fyrir því að Bretland, Frakkland, Þýskaland og fjöldi annarra Evrópuríkja viðurkenni Juan Guaidó sem sitjandi forseta Venesúela á morgun, hafi Nicolas Maduro, forseti ríkisins, ekki boðað til kosninga fyrir morgundaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×