Íslenski boltinn

Forseti UEFA braut hugsanlega eigin siðareglur er hann dásamaði Guðna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ummæli Ceferin á Vísi hafa skapað mikinn usla.
Ummæli Ceferin á Vísi hafa skapað mikinn usla. vísir/getty
Viðtal Vísis við Aleksander Ceferin, forseta UEFA, þar sem hann mærði Guðna Bergsson, formann KSÍ, í bak og fyrir hefur vakið athygli víða og svo gæti verið að Ceferin hafi brotið siðareglur UEFA með orðum sínum.

Í siðareglum UEFA segir að aðildarsambönd skuli halda sjálfstæðar kosningar án afskipta þriðja aðila. Margir telja að Ceferin hafi brotið eigin siðareglur með ummælum sínum á Vísi því hann lofar annan frambjóðandann í formannskjöri KSÍ og leynir því ekki að hann telur hagsmunum KSÍ best borgið innan UEFA með Guðna sem formann.

Norski fjölmiðillinn Josimar.no, sem kafar oft djúpt í málefni knattspyrnuhreyfingarinnar, tók málið upp á sinni síðu í gær og sendi síðan UEFA fyrirspurn um málið.

Þar vill fjölmiðillinn fá svör við því hvort Ceferin hafi verið að brjóta siðareglur sambandsins með því að gefa klárlega í skyn að Guðni sé betri kostur en Geir. Josimar spyr hvort þetta sé ekki afskiptasemi af kosningunum hjá KSÍ?

Miðillinn vill líka fá að vita hvernig Ceferin geti dæmt um að samband UEFA og KSÍ hafi aldrei verið betra þar sem hann hafi aðeins verið forseti í tvö ár.

Josimar hafði sömuleiðis samband við Geir Þorsteinsson sem er enn hneykslaður á þessu uppátæki forseta UEFA.

„Þessi ummæli voru svo sláandi að ég hélt í fyrstu að þetta væri brandari. Þetta er klár misnotkun á valdi. Ceferin er einn valdamesti maðurinn í knattspyrnuheiminum og það er ótrúlegt að hann sé að skipta sér af lýðræðislegum kosningum á Íslandi,“ segir Geir hneykslaður.


Tengdar fréttir

Forseti UEFA: Guðni Bergsson er frábær leiðtogi

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, talar fallega um Guðna Bergsson, formann KSÍ, í samtali við Vísi og segir samstarf KSÍ og UEFA betra núna en það hafi nokkurn tíma verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×