Karlmaður var handtekinn fyrir líkamsárás sem á að hafa átt sér stað í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum aðfaranótt föstudags. Bæði þolandi og árásaraðili eru Íslendingar samkvæmt heimildum DV. Hinn handtekni á þá einnig að vera íslenskur lögreglumaður.
Lögreglunni í Færeyjum barst tilkynning um að slagsmál hefðu brotist út á milli tveggja karlmanna um hálf þrjú leytið aðfaranótt föstudags.
Í tilkynningunni kemur fram að fórnarlamb árásarinnar hefði hlotið áverka og verið fluttur til aðhlynningar. Árásaraðilinn var handtekinn. Málið er enn í rannsókn.
