Skoðun

Þegar þeim sýnist

Aron Leví Beck skrifar

Nýverið sendu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, frá sér frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu. Ef frumvarpið verður samþykkt þá tekur Alþingi skipulagsvaldið frá Reykjavík á stóru svæði í Kvosinni en Reykjavíkurborg á tæplega helming eigna á þessu tiltekna svæði. Alþingislóðin er um 18,5 prósent af svæðinu og þá eru rúm 35 prósent lóða í einkaeigu. Þannig er lóð Alþingis einungis tæpur fimmtungur af því svæði sem lagt er til að tekið verði undan skipulags- og byggingarvaldi Reykjavíkurborgar.

Þetta sendir mjög slæm skilaboð til allra sveitarfélaga á Íslandi. Ákveðnum aðilum í þinginu finnst borgin ekki vinna hlutina nákvæmlega eins og þeir sjálfir myndu gera en byggja svo mál sitt á litlum sem engum rökum. Að Alþingi geti komið og hrifsað skipulagsvald af sveitarfélögum þegar þeim sýnist er grafalvarlegt mál.



Ég held að þetta endurspegli öðru fremur yfirgripsmikla vanþekkingu á skipulagsmálum. Í stjórnarskránni er talað um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og að skipulags- og mannvirkjamál séu almennt í höndum sveitarfélaga. Ég sé ekki hvernig þetta tiltekna svæði eigi að lúta öðrum lögmálum og fá einhverja sérmeðferð. Þetta eykur flækjustig og er aðför að lýðræðislega kjörnum fulltrúum í borgarstjórn.



Breytingar á skipulagsvaldi í tilteknum málum – til þess einfaldlega að koma sínum málum áfram – eru hvorki fagleg né lýðræðisleg vinnubrögð. Ef frumvarpið verður að lögum er um að ræða verulegt inngrip ríkisins í skipulagsvald Reykjavíkurborgar. Sjálfstæðisf lokkurinn sat hjá í atkvæðagreiðslu um þetta mál í borgarráði. Ef það er eitthvað sem kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn hafa alltaf verið sammála um þá er það að standa vörð um skipulagsvald.



Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×