Fótbolti

„Bale má fagna mörkunum sínum eins og hann vill“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale vildi ekki fagna markinu sínu í gær.
Gareth Bale vildi ekki fagna markinu sínu í gær. Getty/Jose Breton
Gareth Bale tryggði Real Madrid 2-1 sigur á Levante í spænsku deildinni í gær. Það voru hins vegar fagnaðarlæti Bale sem stálu senunni.

Santiago Solari, knattspyrnustjóri Real Madrid, fullvissaði blaðamenn um það eftir leik að velska stórstjarnan hafi verið „himinlifandi“ með markið sitt. Það sást aftur á móti ekki á honum.

Bale skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Þetta var í sjötta sinn í síðustu átta leikjum Real Madrid þar sem Gareth Bale byrjar á bekknum.





Hann fagnaði ekki markinu heldur skokkaði steinrunninn aftur á miðju vallarins og hristi á leiðinni af sér tilraunir liðsfélaganna til að fagna með honum markinu.

„Ég er mjög ánægður. Hann má fagna mörkum sínum eins og hann vill,“ sagði Santiago Solari.





„Hann var himinlifandi með markið sitt þegar ég hitti hann í klefanum eftir leik,“ sagði Solari og bætti við:

„Ég er mjög kátur með það hvernig hann kom hungraður inn í leikinn. Hann tryggði okkur sigurinn og vann vel fyrir liðið,“ sagði Solari.

Spænsku íþróttablöðin Marca og AS voru með fagnaðarlæti Bale, eða betur sagt skort á þeim, á forsíðum sínum í morgun.

„Þið hafið miklu fleiri augu en við en við erum í hringiðunni og ég sá hversu hungraður hann var á vellinum og staðráðinn í að hjálpa liðinu sínu,“ sagði Solari.

Real Madrid keypti Gareth Bale frá Tottenham árið 2013 fyirr 85 milljónir punda og hann hefur síðan skorað 101 mark í 220 leikjum fyrir félagið. Bale er með 13 mörk í 31 leik á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×