Enski boltinn

„Allt sem hefði getað farið úrskeiðis í fyrri hálfleiknum fór úrskeiðis“

Anton Ingi Leifsson skrifar
„Allt sem hefði getað farið úrskeiðis í fyrri hálfleiknum fór úrskeiðis,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, eftir markalausa jafntefli við Liverpool í dag.

Norðmaðurinn þurfti að gera þrjár breytingar strax í fyrri hálfleik vegna meiðsla sinna manna en meiðsli herjuðu á leikmenn United og Marcus Rashford kláraði meðal annars leikinn hálf tæpur.

„Það er ekkert sem kemur þér á óvart í fótbolta og þú verður að vera tilbúinn fyrir allt en að missa þrjá leikmenn í fyrri hálfleik vegna meiðsla...,“ sagði Solskjær sem átti ekki orð.

„Það hefði verið hægt að taka Rashford af velli líka því hann meiddist eftir fyrstu tæklinguna af mörgum. Henderson fór í hann og ökklinn á honum var eins og blaðra.“

„Ég var mjög áhygjufullur að hafa Marcus á vellinum og gera meiðslinn enn verri en hann er stríðsmaður. Við þurftum að halda honum inni á vellinum því við vorum nú þegar búnir með þrjá skiptingar.“

Leikurinn í gær var afar rólegur og það voru ekki mörg færin en með stiginu fór Liverpool á toppinn og United er í fimmta sætinu.

„Þetta leit út fyrir að verða erfitt kvöld en ég man ekki eftir að Liverpool hafi átt færi. Þrátt fyrir að þeir hafi verið með boltann man ég ekki eftir að David de Gea hafi þurft að verja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×