Skoðun

Gervigreind er að breyta okkar lífi

Heimir Fannar Gunnlaugsson skrifar
Árið er 2019 og þegar talað er um tækni er oftar en ekki minnst á gervigreind og þau áhrif sem hún hefur á líf okkar í dag. Að undanförnu hafa mörg tæknifyrirtæki lagt áherslu á gervigreind í sínum vörum og getur ávinningur gervigreindar verið mikill fyrir samfélagið í heild. Heilbrigðisþjónustan getur og hefur notið góðs af þessari byltingarkenndu tækni. Mörg tækifæri eru til staðar til að veita fólki betra líf, en á sama tíma spara stórar fjárhæðir með notkun gervigreindar.

Tækni sem bætir heilbrigðisþjónustu

Ég heimsótti nýsköpunarfyrirtækið KenSci í Seattle á haustmánuðum sem vinnur að gervigreind fyrir heilbrigðisgeirann. Hugbúnaðarlausnir KenSci hafa hlotið jákvæða umfjöllun frá Microsoft, en fyrirtækið leggur áherslu á að greina sjúklinga sem útskrifast af sjúkrahúsum en þurfa að koma aftur sökum fylgikvilla. KenSci telur sig geta spáð fyrir um ótímabærar endurkomur sjúklinga með meira en 85% nákvæmni. Ávinningurinn er mikill því talið er að ótímabær endurkoma sjúklings á bandarískt sjúkrahús kosti að meðaltali rúmlega 5 milljónir króna. Gervigreindarmódel KenSci byggir á gögnum sem fyrirtækið hefur sérhæft sig í að safna og nýta í þessum tilgangi og er þjálfað af sérfræðingum úr heilbrigðisgeiranum, læknum sem og öðrum sem hafa sérþekkingu á málefninu í samstarfi við sérfræðinga á sviði vinnslu og framsetningu gagna. Engar persónugreinanlegar upplýsingar fara á milli sjúkrahúss og skýjaþjónustu Microsoft sem vinnur greininguna og ber spítalinn fulla ábyrgð á gögnum sjúklingsins. Í heimsókn minni kom einnig fram að KenSci vinnur náið með stjórnvöldum í Asíu að því að greina þau tækifæri sem heilbrigðisyfirvöld standa frammi fyrir við frekari nýtingu gervigreindar, einkum til að lækka kostnað og hækka þjónustustig.



Ísland getur verið í fararbroddi

Það verður ekki um villst að gervigreind er allt í kringum okkur. Við nýtum okkur flokkun á mikilvægum tölvupóstum í tölvupóstþjónustum, til dæmis Microsoft Outlook. Síðan veljum við kvikmyndir og þætti sem Netflix telur að við höfum áhuga á miðað við fyrra áhorf. Hvoru tveggja er byggt á gervigreind. Hagnýting gervigreindar getur skapað mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir og því mikilvægt að að þau leggi vinnu og fjármagn í að kanna og þróa leiðir til þess að nýta þessa tækni. Að mínu mati er þetta kapphlaup og ég tel að leggja þurfi mun meiri áherslu á hvernig nýta beri gervigreind. Í kjölfarið spretta nýsköpunarfyrirtæki sem munu mögulega hjálpa okkur í rétta átt – nýsköpunarfyrirtæki eins og KenSci og hið íslenska Nox Medical. Í nýlegri skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið EY gerði í samvinnu við Microsoft kemur fram að um 4% af þeim 277 evrópsku fyrirtækjum sem voru spurð eru farin að sjá árangur af því að nýta gervigreind og 61% þeirra eru að skipuleggja þessa vinnu. Við Íslendingar getum orðið brautryðjendur í upplýsingatækni framtíðarinnar. Til að svo megi verða er mikilvægt að stjórnvöld og fyrirtæki vinni skipulega að hagnýtingu gervigreindar og fjárfesti í þróun hennar. Gervigreind er tækni sem skapar ótal tækifæri til framfara og það er undir okkur komið að leita þau uppi og nýta þau.

Höfundur er Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×