Körfubolti

Obama og LeBron sendu Zion hlýjar kveðjur er hann meiddist

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Zion liggur hér meiddur á parketinu og sólinn farinn undan öðrum skónum hans.
Zion liggur hér meiddur á parketinu og sólinn farinn undan öðrum skónum hans. vísir/ap
Eftirvæntingin fyrir leik háskólaliðanna Duke og North Carolina í nótt var gríðarleg og miðar fóru á fáranlegu verði. Þeir sem borguðu sig inn urðu vitni að harmleik er ungstirnið Zion Williamson meiddist.

Það voru ekki nema 36 sekúndur liðnar af leiknum er Zion féll í gólfið og hélt um hnéð á sér. Hann snéri ekki aftur. Meiðslin eru þó ekki sögð alvarleg en hann verður þó frá í einhvern tíma og spurning hvort hann nái úrslitunum í næsta mánuði.





Eins og sjá má á myndbandinu hér að ofan þá rifnaði Nike-skórinn hans Zion en þessi meiðsli og þetta atvik er ein versta auglýsing sem Nike hefur lent í lengi. Fyrirtækið sagðist taka þetta mjög alvarlega og myndi setja menn í að skoða það strax.

Williamson er aðalástæðan fyrir því að fólk greiddi sig inn á þennan leik en fastlega er búist við því að hann verði valinn fyrstur í næsta nýliðavali NBA-deildarinnar.

Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, var á meðal þeirra sem mættu á leikinn og fann til með Zion. Hann sendi honum svo kveðju á Twitter.





Obama var ekki sá eini sem sendi Zion góðar kveðjur því slíkt hið sama gerði LeBron James, aðalstjarna NBA-deildarinnar, en það voru allir að horfa á þennan leik.





Án Zion var á brattann að sækja hjá ungu liði Duke sem varð að sætta sig við tap, 88-72, gegn sterku liði North Carolina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×