Lögregla í Chicago í Bandaríkjunum staðfesti í kvöld að leikarinn Jussie Smollett sé nú formlega með stöðu grunaðs manns í sakamálarannsókn, en hann er grunaður um að hafa logið að lögreglu.
Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því í lok janúar að ráðist hefði verið á Smollett, en hann hefur gert garðinn frægan fyrir að fara með eitt aðalhlutverkanna í þáttaröðinni Empire.
Sagði Smollett að tveir einstaklingar hafi ráðist á hann og haft uppi fordómafull ummæli sem sneru að kynþátt og kynhneigð leikarans, en hann er dökkur á hörund og samkynhneigður. Þá sagði hann árásarmennina hafa hrópað slagorð, „MAGA“ [Make America Great Again].
Fyrr í vikunni var greint frá því að rannsókn hefði leitt í ljós að Smollett þekkti til meintra árásarmanna og hafi rannsókn lögreglu sýnt að árásin hefði líklegast verið sett á svið. Hafi Smollett greitt tvímenningunum fyrir að ráðast á hann.
Mennirnir sem voru sagðir hafa ráðist á Smollett eru bræður frá Nígeríu, Olabinjo og Abimbola Osundairo að nafni. Á annar þeirra að hafa farið með aukahlutverk í þáttunum Empire.
Bræðurnir voru handteknir en sleppt úr haldi síðastliðinn föstudag. Í kjölfarið höfðu bandarískir fjölmiðlar eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan lögreglunnar að Smollett hafi sjálfur við „virkur gerandi“ í árásinni á sér sjálfum. Lögmenn Smollett hafa þó hafnað þeim ásökunum.