Fótbolti

Getafe stefnir hraðbyri á Meistaradeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jaime Mata skoraði bæði mörk Getafe gegn Huesca.
Jaime Mata skoraði bæði mörk Getafe gegn Huesca. vísir/getty
Getafe er á góðri leið með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn.

Í kvöld vann liðið 2-1 sigur á Huesca á heimavelli, þökk sé tveimur mörkum frá Jamie Mata.

Getafe er nú með 45 stig í 4. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á undan Alavés sem er í 5. sætinu. Fjögur efstu lið deildarinnar komast í Meistaradeildina á næsta tímabili.

Getafe tryggði sér sæti í spænsku úrvalsdeildinni á nýjan leik 2017. Á síðasta tímabili endaði liðið í 8. sæti deildarinnar.

Besti árangur Getafe er 6. sæti sem liðið náði tímabilið 2009-10. Allt bendir til þess að sá árangur verði toppaður í ár.

Getafe hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og ekki beðið ósigur síðan 29. janúar þegar liðið tapaði fyrir Atlético Madrid, 2-0, í leik þar sem það missti tvo leikmenn af velli með rauð spjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×