Innlent

Mjög slæm loftgæði þrátt fyrir rykbindingu í vikunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Vindur hefur þyrlað upp grófu svifryki á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Vindur hefur þyrlað upp grófu svifryki á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vísir/Sindri Reyr
Styrkur grófara svifryks hefur farið yfir viðmiðunarmörk á höfuðborgarsvæðinu í dag og teljast loftgæði við tvær mælistöðvar í borginni „mjög slæm“. Rykbundið var í borginni í byrjun vikunnar en sérfræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar segir að svifrykið nú sé líklega blanda af umferðar- og umhverfisryki.

Gildin sem mælst hafa við Grensásveg og við Njörvasund í Reykjavík hafa verið skilgreind sem „mjög slæm“. Klukkan 14:00 mældist styrkur PM10-svifryks 328 míkrógrömm á rúmmetra. Hann hefur verið „mjög slæmur“ frá því klukkan ellefu. Í Njörvasundi fór stykurinn mest upp í 121,2 míkrógrömm á rúmmetra klukkan tólf. Það teljast einnig mjög slæm loftgæði.

Svifryksmengun í borginni hefur verið slæm í vikunni vegna kulda og stillu. Vegagerðin og borgin gripu því til þess ráðs að rykbinda götur og vegi allt frá Reykjanesbraut að Ánanaustum á þriðjudag.

Kristín Lóa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar, segir rykbinding hafi gefist vel en að áhrifa hennar gæti ekki lengur.

Rykið nú komi ekki aðeins frá umferðargötum heldur blási vindur ryki af gangstéttum og graseyjum héðan og þaðan. Spáð sé rigningu og snjókomu um helgina og því ættu loftgæði að batna.

Hún segir að borgin sé í startholunum með að rykbinda næst þegar aðstæður kalli á það og sé tilbúin með efni til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×