Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - Stjarnan 66-73 | Mikilvægur Stjörnusigur

Arnór Óskarsson skrifar
Danielle átti frábæran leik í Hólminum.
Danielle átti frábæran leik í Hólminum. Vísir/andri marinó
Mikið var undir í leik Snæfells og Stjörnunnar sem mættust í Stykkishólmi í dag í 24. umferð Dominos deild kvenna. Baráttan um sætti í urslitakeppninni er að venju hörð og hafa bæði Snæfell og Stjarnan undanfarnar umferðir barist um fjörða sætið, sem tryggir þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Stjarnan byrjaði leikinn í dag á skotsýningu og sýndi strax í verki að þær voru komnar til að ná sér í tvö stig. Hart var barist um boltan báðu megin og spennustigið mjög hátt hjá báðum liðum. Stjarnan hafði þó betri stjórn á sínum leik og unnu því leikhlutan með 10 stigum, 15-25.

Í öðrum leikhluta jókst sjálfstraust Stjörnunnar enn frekar og virtust þær á tímabili óstöðvandi í bæði vörn og sókn. Danielle Rodriguez var þar fremst í flokki en hún kláraði fyrri hálfleik með 20 stigum. Snæfell átti erfitt með að finna réttan takt og skoraði aðeins 7 stig í öðrum leikhluta. Hálfleikstölur 22-41.

Þriðji leikhlutinn bauð ekki upp á mikið framan af en liðin skiptust á að skora í töluverðan tíma. Stjarnan hélt áfram að stjórna á meðan Snæfell reyndi eftir bestu getu að komast inn í þennan leik. Stjarnan var með þæginlega forystu eftir þriðja leikhluta, 40-54.

Snæfell byrjaði fjórða leikhlutan á áhlaupi og minnkaði muninn í 8 stig á örstuttum tíma. Stjarnan virtist þó taka því með ró og hélt áfram að vera í bílstjórasætinu þangað til að leiknum lauk, 66-73.

Af hverju vann Stjarnan?

Leikur Stjörnunnar einkenndist af mikilli baráttugleði og ekki síðst aga í vörn og sókn. Aldrei virtust Stjörnukonur í vafa um hver væri að fara vinna þennan leik og var sjálfstraustið til fyrirmyndar í ljósi gengi flestra liða á heimavelli Snæfells.

Snæfell átti aftur á móti í töluverðum erfiðleikum með að klára sínar sóknir og fann aldrei réttan takt þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir til að koma sínum leik í gang.

Hverjar stóðu upp úr?

Mikilvægi erlendra leikmanna í báðum liðunum er óumdeilanlegt. Bæði Kristen Denise McCarthy, leikmaður Snæfells, og Danielle Victoria Rodriguez, leikmaður Stjörnunnar, hafa dregið vagninn í vetur og leiða liðin sín í helstu tölfræði þáttum.

Engin undantekning var á því í dag. Danielle var óstöðvandi í sóknarleik Stjörnunar og skoraði 37 stig. Kristen neitaði að gefast upp og endaði með 34 stig.

Ragnheiður og Bríet Sif stóðu sig einnig vel í sókninni.

Hvað gekk illa?

Snæfellskonur virkuðu kraftlausar eftir fyrsta áhlaup Stjörnunnar sem kom strax í upphaf leiks. Ekkert virtist ganga upp hjá heimakonum á meðan leikur Stjörnunnar fór stig vaxandi í átt að sigri ú fyrri hálfleik. Stjarnan hægði aðeins á sér í seinni hálfleik en virtist ekki á neinum tímapunkti að vera missa tök á þessum leik.

Hvað gerist næst?

Nú eru fjórar umferðir eftir þangað til að úrslitakeppnin hefst. Snæfell á eftir að mæta KRingum, Skallagrím, Hauka og Val. Stjarnan á eftir að mæta Skallagrím, Haukum, Val og Breiðablik.

Pétur Már: Ánægður að hafa unnið

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur með úrslitin í dag.

„Ég er ánægður að hafa unnið. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og vorum undirbúin undir að þær kæmu til baka í seinni. Við sýndum karakter í restina og héldum þetta út. Það var mjög gott.“

Aðspurður um hvað hefði gengið vel nefndi Pétur varnarleik liðsins og fráköstin í fyrri hálfleik.

„Við vorum þéttar varnalega en hefðum getað frákastað aðeins betur.Við vorum að frákasta vel í fyrsta leikhluta og alveg upp í hálfleik. Snæfell náði að out-rebounda okkur í seinni og fengu þær því fleiri sénsa að skora. En við stóðumst pressuna og er bara glaður með það.“

Gunnhildur: Þeim langaði kannski meira í þennan sigur

Fyrirliði Snæfells var að vonum svektur með úrslitin í dag og átti fá svör við hvað hefði nákvæmlega klikkað á þessum annars sterka heimavelli.

„Mér fannst við ekki mæta til leiks eins og við værum að fara spila stærsta leikinn okkar á þessu tímabili. Við vorum því miður ekki tilbúnar og byrjuðum þetta ekki fyrr en seint í þriðja leikhluta þegar við náðum þessu í 10 stig,“ sagði Gunnhildur.

„Þær hittu rosalega vel og við vorum að hitta illa. En heilt yfir langaði þeim þetta kannski meira. Því miður.“

Baldur: Hleyptum þeim of langt í burtu

Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells, ætlaði sér eflaust stærri hluti með liðið sitt í kvöld. Snæfell þurfti þó að sætta sig við tap á heimavelli og viðurkenndi Baldur að fyrri hálfleikur hafi valdið vonbrigðum.

„Þetta eru náttúrulega vonbrigði. Sértaklega hvað varðar fyrri hálfleik. Við bara mættum ekki til leiks og hleyptum þeim allt of langt í burtu frá okkur,“ sagði Baldur hugsi eftir leik.

Baldur sagði að ekki væri auðvelt að missa lið eins og Stjörnuna langt frá sér og þurfa að elta þær síðan allan leikinn.

„Það fór svo mikil orka í að reyna að ná þeim aftur. En við vorum nálægt því.“

Baldur taldi einnig að varnarkerfin hefðu ekki skilað sínu í dag en leggja átti áheyrslu á að stöðva Danielle Rodriguez eftir bestu getu.

„Við vorum með ákveðna hluti sem við ætluðum að nota í vörninni sérstaklega til að hægja á Rodriguez. Það fór ekki vel í fyrri hálfleik en gekk betur í seinni sem útskýrir afhverju við fórum að draga á þær.“

Aðlokum bætti Baldur við: „Ef varnarleikurinn er ekki í lagi þá er sóknarleikurinn það yfirleitt ekki heldur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira