Málið vakti töluverða athygli á sínum tíma en í flugvélinni voru tveir lögreglumenn sem áttu að fylgja hælisleitandanum Eze Okafor úr landi. Konurnar reyndu að sporna gegn því með því að fá aðra farþega í lið með sér til þess að koma í veg fyrir að flugvélin gæti farið af stað.
„Ef þið standið öll upp þá fer flugvélin ekki. Það er verið að flytja mann ólöglega úr landi til Nígeríu. Hann situr hér í vélinni og ef þið standið öll upp getur vélin ekki farið,“ sagði önnur konan við aðra farþega líkt og Vísir greindi frá á sínum tíma.
Konurnar voru ákærðar fyrir að hafa staðið upp, hrópað og kallað yfir farþega og flugverja að lögregla væri að flytja mann, Okafor, ólöglega úr landi og hvatt aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyrirmælum flugverja, í þeim tilgangi að tefja flugtak vélarinnar þannig að hann yrði færður úr flugvélinni áður en til flugtaks kæmi.
Raskað öryggi flugvélarinnar
Með háttsemi sinni hafi þær reynt að tálma því að lögreglumennirnir sem fylgdu Okafor gætu gegnt störfum sínum auk þess sem þær eru sagðar hafa raskað öryggi flugvélarinnar. Samkvæmt almenningum hegningarlögum er refsing við fyrra brotinu allt að tveggja ára fangelsi en því seinna allt að fimm ára fangelsi eða sektum samkvæmt lögum um loftferðir.Sambærilegt mál fór fyrir dómstóla í Svíþjóð fyrr á árinu. Hin 21 árs gamla Elin Ersson hafði verið ákærð fyrir að reyna að tefja flug Turkish Airlines frá Gautaborg til Istanbúl, en um borð voru tveir hælisleitendur sem vísa átti frá landi.
Var hún dæmd fyrir að brjóta flugöryggisreglugerð og þurfti hún að greiða þrjú þúsund sænskar krónur í sekt, um 40 þúsund krónur.
Saka rannsakendur um leiðandi spurningar
Verjendur kvennanna tveggja, þeirra Jórunnar Eddu Helgadóttur og Ragnheiðar Freyju Kristínardóttur, hafa gagnrýnt að vitni hafi verið spurð leiðandi spurninga við rannsókn málsins. Frá þessu greindi Stundin í gær en fjórar flugfreyjur og þrír flugmenn koma fyrir dóminn í dag til að bera vitni um það sem fram fór í flugvélinni.Þá gagnrýna lögmennirnir, þau Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Páll Bergþórsson, að hafa ekki fengið endurrit af upptökum af skýrslutökum yfir vitnum málsins eins og venja sé. Þau hafi þurft að fara á skrifstofu héraðssaksóknara í Skúlagötu til þess. Páll gagnrýnir það sem hann kallar leiðandi spurningar varðandi það hvort konurnar hafi raskað öryggi vélarinnar.
Fyrirsögn fréttarinnar var lagfærð.