Fótbolti

Fyrsta tap stelpnanna undir stjórn Jóns Þórs var skellur á móti Skotum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði mark Íslands í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði mark Íslands í dag. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu steinlá 4-1 á móti Skotum í öðrum leik sínum i Algarve-bikarnum í dag.

Þetta var fyrsta tap íslensku stelpnanna síðan að Jón Þór Hauksson tók við liðinu en fyrsti sigurinn kom einnig á móti Skotum í vináttuleik á La Manga á Spáni í Janúar.

Íslenska liðið vann þá 2-1 sigur en allt annað var upp á tengingnum í dag þar sem skoska liðið var með mikla yfirburði.

Lizzie Arnot kom Skotum í 1-0 á 13. mínútu eftir hornspyrnu og Erin Cuthbert bætti við öðru marki á 33. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik.

Kim Little kom Skotum í 3-0 á 55. mínútu með frábæru skoti rétt við teiginn en Sara Björk Gunnarsdóttir minnkaði muninn tveimur mínútum síðar með góðu skoti rétt fyrir utan teiginn.

Skotar komust í 4-1 á 67. mínútu þegar Elizabeth Arnot skoraði eftir vel útfærða skyndisókn.

Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, kom inná sem varamaður á 75. mínútu en þetta var fyrsti leikur Margrétar með landsliðinu síðan í apríl 2017.

Skoska landsliðið er á leiðinni á HM í Frakklandi í sumar og sýndi það í þessum leik að liðið er klárt í það krefjandi verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×