Fótbolti

Með brotið bak fyrir sex mánuðum en skoraði fyrir landsliðið sitt í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hayley Raso fagnar markinu með liðsfélögum sínum í ástralska landsliðinu.
Hayley Raso fagnar markinu með liðsfélögum sínum í ástralska landsliðinu. Getty/Cameron Spencer
Knattspyrnukonan Hayley Raso hefur náð hreint ótrúlegum bata eftir hryllileg meiðsli sem hún varð fyrir í knattspyrnuleik síðasta haust.

Hayley Raso braut þriðja hryggjarlið í leik með Portland Thorns í bandarísku deildinni í ágúst síðastliðnum.

Hayley gafst ekki upp heldur kom sér aftur í gang og aftur inn á fótboltavöllinn og nú sex mánuðum síðar er hún farin að banka vel á landsliðsdyrnar fyrir HM í Frakklandi í sumar.







Þessi 24 ára gamli kantmaður kórónaði endurkomu sína með því að skora fyrir ástralska landsliðið í 2-0 sigri á Nýja-Sjálandi í æfingamóti í dag.

„Þetta er svolítið yfirþyrmandi fyrir mig. Ég er svo spennt að vera aftur farin að spila fótbolta og það toppaði síðan allt að ná að skora,“ sagði Hayley Raso í viðtali við BBC eftir leikinn.  

Hayley Raso kom inn á sem varamaður í leiknum og innsiglaði sigurinn aðeins þremur mínútum síðar.

Fyrir sex mánuðum lenti hún í mjög slæmu samstuði við markvörðinn Aubrey Bledsoe í leik með Portland Thorns á móti Washington Spirit. Hún braut þriðja hryggjarlið og hefði getað verið lömum fyrir lífstíð.

„Mín fyrsta hugsun var: Ég mun ekki geta gengið aftur,“ sagði Hayley Raso í viðtali á heimasíðu ástralska knattspyrnusambandsins í september.

„Ég brotnaði niður og allar þessar tilfinningar helltust yfir mig. Það eina sem ég gat hugsað um er hvernig get ég lifað svona,“ sagði Raso en betur fór en á horfðist.

Hún var í eina og hálfa viku á sjúkrahúsi og fór síðan í krefjandi endurhæfingu þar sem hún lærði að ganga á nýjan leik.

„Það kom nokkrum sinnum fyrir að það leið yfir mig vegna sársaukans,“ sagði Hayley Raso í viðtali við ABC. Það má sjá meira um sögu hennar með því að smella hér fyrir neðan.





Hayley Raso spilaði fyrsta leikinn með félagsliði sínu í janúar en hún spilar með Brisbane Roar. Næst á dagskránni er síðan að vinna sér sæti í HM-hópi Ástrala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×