Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um hest í íbúðahverfi í Árbænum um klukkan níu í morgun. Hesturinn fannst ekki þrátt fyrir leit en lögregla bindur vonir við að hann hafi skilað sér til síns heima, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðborg Reykjavíkur í morgun en fíkniefni fundust á honum við öryggisleit.
Rúmlega níu í morgun var svo tilkynnt um bifreið sem hafði runnið á aðra bifreið í hverfi 105 í Reykjavík. Báðar bifreiðar voru mannlausar en engin slys urðu á fólki.
Þá var ökumaður stöðvaður Kópavoginum um klukkan hálf ellefu. Hann reyndist við nánari athugun vera undir áhrifum áfengis og aka sviptur ökuréttindum.
Hestur á flakki í Árbænum
Kristín Ólafsdóttir skrifar
