Sextán aðildarfélög Starfsgreinasambandsins ætla að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins ef atvinnurekendur leggja ekkert nýtt fram í viðræðum þeirra um helgina. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir samningaviðræður steyta á ágreiningi um vinnutíma.
„Það var samþykkt í samninganefndinni okkar sem eru formenn allra þessa 16 félaga sem eru innan sambandsins að við gefum þessu núna helgina,“ segir Björn sem bætir við að komi ekkert nýtt fram í viðræðunum um helgina sé öruggt að viðræðunum verði slitið.
Það hefur greinilega reynt á þolinmæði samninganefndar SGS því síðastliðinn föstudag kom fram í tilkynningu frá nefndinni að þolinmæði sambandsins væri ekki endalaus. Björn segir margt hafa gengið vel í viðræðunum undanfarnar þrjár vikur. Menn hafi náð saman um dýrmæt atriði eins og möguleika á styttingu vinnuvikunnar en ekkert sé þó á hreinu fyrr en skrifað hefur verið undir.
„Ég verð með símann opinn og ég vona að ég fái eitthvað gott símtal um helgina,“ segir Björn.
