Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, neitaði að tjá sig um Landsréttardóm Mannréttindadómstóls Evrópu við komuna til landsins í Leifsstöð nú í morgun.
Ráðherrann var að koma af fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York og tók Sighvatur Jónsson, fréttamaður, á móti Katrínu á flugvellinum.
„Ég er ekki að fara í viðtal núna. Ég tek fjölmiðlana einhvern tímann í hádegið,“ sagði Katrín við komuna til landsins en hún tjáði sig ekkert um málið í gær.
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær að skipan dómara við Landsrétt hefði ekki verið í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins og skipanin bryti í bága við 6. grein Mannréttindasáttmálans þar sem kveðið er á um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar.
Er málsmeðferð Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, harðlega gagnrýnd í dómi MDE sem og málsmeðferð Alþingis.
Fáir stjórnarliðar hafa viljað tjá sig um málið síðan dómurinn var kveðinn upp fyrir utan Sigríði sjálfa og Birgi Ármannsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður sagði í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að hún ætlaði ekki að segja af sér embætti ráðherra vegna dómsins og þá sagði Birgir að hann teldi dóminn engu breyta um stöðu Sigríðar innan ríkisstjórnarinnar.
Uppfært: Myndband sem fylgdi þessari frétt þar sem heyra mátti orðaskipti fréttamanns og ráðherra, sem lesa má hér að ofan, var tekið úr birtingu þar sem vinnslan á því samrýmdist ekki ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
