Erlent

May varar við því að ekkert verði af Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Pólitísk framtíð Theresu May er í lausu lofti nú þegar útlit er fyrir að útgöngusamningur hennar verði felldur öðru sinni.
Pólitísk framtíð Theresu May er í lausu lofti nú þegar útlit er fyrir að útgöngusamningur hennar verði felldur öðru sinni. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, varaði þingmenn við því að hætta væri á að ekkert verði af útgöngunni úr Evrópusambandinu ef þeir greiða ekki atkvæði með útgöngusamningi hennar í kvöld. Norður-írskur íhaldsflokkur sem ver minnihlutastjórn May falli hefur sagst ætla að greiða atkvæði gegn samningnum og búist er við því að fjöldi íhaldsþingmanna geri það sömuleiðis.

Atkvæði verða greidd um útgöngusamninginn í kvöld. May lagði fram breytingar á honum sem varða írsku baktrygginguna svonefndu eftir samningaviðræður í gær og hélt því fram að þær tækju á áhyggjum Brexit-sinna um samninginn. Lögfræðiálit sem lagt var fyrir þingið í morgun gekk þó gegn þeirri fullyrðingu May.

May svaraði spurningum þingmanna á þinginu nú eftir hádegi.

„Ef þetta fer ekki í gegn í kvöld, ef þessu samningur verður ekki samþykktur, þá gæti Brexit glatast,“ sagði May.

Engu að síður sögðust þingmenn DUP, flokks norður-írskra sambandssinna, og harðlínumenn í flokki May ætla að greiða atkvæði gegn samningnum.

Bretar ætla að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars. Verði samningurinn felldur í kvöld stendur til að greiða atkvæði um útgöngu án samnings á morgun. Verði sú leið felld gæti útgöngunni verið frestað tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×