Skoðun

Kæra dagbók

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Árla morguns fór ég á hestvagninum í Bónus á Fiskislóð vegna þess að ég átti að sækja aðföng fyrir götuna í þessari viku. Margnota dömubindi, fjölnota skeinituskur, linsubaunir og tófústeikur eru komnar á sína staði og þetta tók mig nú ekki nema rétt tæpar tvær klukkustundir.

Sámur 2.1 var með í för og hann skeit þrisvar á leiðinni og skíturinn er enn á sínum stað. Hvað vorum við eiginlega að spá þarna þegar við vorum undir oki plastmenningarinnar og tróðum lífrænum úrgangi í baneitraða plastpoka?

Á heimleiðinni leyfði ég huganum að reika í ómengaðri þögninni á meðan Boxari dró vagninn sínum letilega takti. Spurði klóninn hvort honum þætti ekki heiður himininn fagur og lífið bara almennt svona nokkuð gott með tilliti til alls og hliðsjónar af hinu liðna.

Hann horfði á mig með þessum krúttlega morðglampa sem vill stundum einkenna afrit af afriti af afriti einhvers sem aldrei átti að endurtaka og lét skína í beittar tennurnar. Sérkennilegur fulltrúi sjúkra tíma, hann Sámur 2.1.

Hundspottinu til varnar var hann ekki einu sinni byrjaður að gerjast í tilraunaglasinu 28. mars 2019 þegar hinir skammsýnu fengu móðursýkiskast yfir því að flugvélar hættu að fljúga og nú myndi allt breytast. Akkúrat á þeim stað í sögu okkar sem hugsandi fólk vissi að við yrðum einmitt að hugsa allt upp á nýtt ef við ættum að lifa af.

19. öldin er alls ekkert svo slæm á þeirri 21. þegar við vitum allt sem við vitum og höfum vit á því að læra af sögunni og reynslunni. Úti í garði eru sætu kartöflurnar að potast upp úr moldinni og landnámshænurnar gagga. Ætli það verði ekki bara ommiletta í kvöldmat og svo rís enn einn fagur dagur á morgun.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×