Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Þór Þ. 67-87 | Þórsarar skelltu í lás í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórsarar eiga enn möguleika á að komast í undanúrslit úrslitakeppninnar.
Þórsarar eiga enn möguleika á að komast í undanúrslit úrslitakeppninnar. vísir/daníel
Þór Þ. gerði góða ferð á Sauðárkrók og vann 20 stiga sigur á Tindastóli, 67-87, í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla í kvöld. Þórsarar knúðu þar með fram fjórða leikinn sem fer fram í Þorlákshöfn á laugardaginn kemur.

Eftir jafnan fyrri hálfleik skelltu gestirnir í lás í 3. leikhluta þar sem heimamenn skoruðu aðeins sex stig.

Eftir 3. leikhluta var munurinn 13 stig, 47-60, og þeirri forystu ógnuðu Stólarnir aldrei í 4. leikhluta. Þórsarar héldu vel á sínum spilum og unnu á endanum öruggan sigur.

Nikolas Tomsick skoraði 23 stig fyrir Þór og Kinu Rochford var með 17 stig og tíu fráköst.

Danero Thomas var stigahæstur hjá Tindastóli með 16 stig.

Af hverju vann Þór?

Vörn Þórsara í seinni hálfleik, og þá sérstaklega 3. leikhluta, gerði útslagið. Þeir héldu Stólunum í aðeins 22% skotnýtingu inni í teig í leiknum og engu breytti þótt heimamenn tækju 20 sóknarfráköst. Þau skiluðu sér aðeins í átta stigum.

Liðsheild Þórsara var sterk og þétt á meðan of margir lykilmenn Stólanna voru langt frá sínu besta. Eftir að gestirnir tóku frumkvæðið í 3. leikhluta léku þeir af mikilli skynsemi og héldu heimamönnum í hæfilegri fjarægð frá sér.

Hverjir stóðu upp úr?

Tomsick var nokkuð spakur í fyrri hálfleik en öflugur í þeim seinni. Hann endaði með 23 stig og hitti úr átta af 14 skotum sínum.

Davíð Arnar Ágústsson átti frábæra innkomu af bekknum hjá Þór og skilaði 15 stigum. Jaka Brodnik var traustur að vanda og Rochford lét til sín taka á báðum endum vallarins. Hann skilaði t.a.m. sex stoðsendingum, líkt og Tomsick.

Danero skoraði 16 stig fyrir heimamenn en átti mjög köflóttan leik. Hann var þó eini leikmaður Tindastóls sem komst eitthvað áleiðis í sókninni.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stólanna var afleitur og ljóst að lið gera ekki mikla rósir með 25% skotnýtingu. Brynjar Þór Björnsson og Pétur Rúnar Birgisson hittu skelfilega og PJ Alawoya var ekki með. Þá kom lítið framlag frá bekknum.

Þórsarar voru ekki nógu duglegir að hreinsa upp í sínum eigin teig en það kom ekki að sök. Þrátt fyrir að Stólarnir hafi tekið 20 sóknarfráköst töpuðu þeir frákastabaráttunni í heildina með sjö.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í fjórða sinn í Þorlákshöfn á laugardaginn. Staða Þórsara er sú sama og fyrir leikinn í kvöld, þeir verða að vinna annars eru þeir komnir í sumarfrí. Þeir hljóta samt að mæta fullir sjálfstrausts til leiks eftir frammistöðuna á Króknum í kvöld.

Baldur: Vorum óeigingjarnir í sókn

„Tilfinningin er mjög góð. Við vorum ekki tilbúnir að hætta þessu og það var mjög ánægjulegt að ná sigri hér,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Þórs Þ., eftir sigurinn á Tindastóli í kvöld.

Þórsarar áttu góðan leik í kvöld og vörn þeirra var sérstaklega sterk í seinni hálfleik. Stólarnir skoruðu t.a.m. aðeins sex stig í 3. leikhluta.

„Við unnum vel saman í vörninni og vorum óeigingjarnir í sókn og hreyfðum boltann vel. Það var margt sem gekk vel í kvöld,“ sagði Baldur.

Með sigrinum í kvöld knúðu Þórsarar fram leik fjögur sem fer fram í Þorlákshöfn á laugardaginn.

„Núna eru þetta fjórir leikir í röð við sama liðið. Þetta verður hrikalega mikil barátta og slagsmál,“ sagði Baldur að lokum.

Martin: Þurfum að spila af enn meiri krafti

Israel Martin, þjálfari Tindastóls, sagði mikilvægt að dvelja ekki of lengi við tapið fyrir Þór í kvöld.

„Við vorum ekki nógu einbeittir. Þessi leikur er að baki. Nú greinum við hann og finnum lausnir í vörninni,“ sagði Martin.

Þrátt fyrir tapið í kvöld eru hans menn enn með pálmann í höndunum. Vinni þeir fjórða leikinn í Þorlákshöfn á laugardaginn eru þeir komnir í undanúrslit.

„Það mikilvægasta er að leikmennirnir nái sér fyrir næsta leik svo þeir hafi nógu mikla orku fyrir fjórða leikinn,“ sagði Martin.

En hvað ætla Stólarnir að gera í þeim leik?

„Spila af enn meiri krafti,“ sagði Spánverjinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira