Skoðun

Eftirlit með eftirlitinu

Davíð Þorláksson skrifar
Í nóvember gerði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur úttekt á Fossvogsskóla og gaf honum einkunnina 4 af 5. Innan við fjórum mánuðum seinna er búið að loka skólanum þar sem heilbrigði nemenda og starfsfólks kann að vera stefnt í hættu vegna raka- og loftgæðavandamála. Þarna hefur Reykjavíkurborg eftirlit með sjálfri sér. Þetta er enn ein sönnun þess að eftirlitsumhverfi hins opinbera er barn síns tíma sem er löngu orðið tímabært að endurskoða.

Stjórnendur fyrirtækja sem sæta eftirliti heilbrigðiseftirlitanna hafa stundum haft það á tilfinningunni að það sé ekki sama hver á í hlut. Starfsemi á vegum sveitarfélaga, sem reka heilbrigðiseftirlitin, virðist oft fá afslátt af kröfum sem einkarekin fyrirtæki þurfi að uppfylla möglunarlaust. Eftirlitið verður samdauna annarri starfsemi sveitarfélaganna. Þá skapar þessi umdæmisskipting flækjur. Mismiklar kröfur kunna að vera gerðar í mismunandi umdæmum og þá eru mörg fyrirtæki með starfsemi í mörgum umdæmum sem fjölgar þeim leyfum sem þau þurfa að afla og þeim stofnunum sem þau þurfa að hafa samskipti við.

Eðlilegast væri að sameina heilbrigðiseftirlitin í eina stofnun sem tæki jafnframt yfir eftirlitsstarfsemi Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Neytendastofu, Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlitsins. Þannig væri hægt að forðast hagsmunaárekstra eins og í tilfelli Fossvogsskóla og aðskilja eftirlit frá almennri stjórnsýslu. Kerfið ætti að vera hannað miðað við þarfir notenda þess. Þetta dæmi vekur líka spurningar um það hver hafi eftirlit með eftirlitinu. Það blasir við að voðinn er vís þegar eftirlit hefur eftirlit með sjálfu sér.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×