Héraðsdómur í Brno í Tékklandi dæmdi í dag manninn sem réðst á tenniskonuna Petru Kvitovu, og stakk hana, í átta ára fangelsi.
Atvikið átti sér stað í desember árið 2016. Hann braust inn til Kvitovu og réðst á hana. Hún mátti þakka fyrir að sleppa eins vel og raun bar vitni en árásarmaðurinn stakk hana í hendina.
Saksóknaraembættið vildi fá 12 ára fangelsisdóm en fékk 8. Árásarmaðurinn heldur enn fram sakleysi sínu og gæti áfrýjað dómnum.
Kvitova hefur í tvígang unnið á Wimbledon og situr nú í öðru sæti heimslistans. Hún þurfti að fara í aðgerð vegna árásarinnar og snéri til baka eftir tæplega hálft ár.
