Ástralskur karlmaður, sem grunaður er um að hafa myrt fimmtíu manns í hryðjuverkaárás á tvær moskur í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi fyrr í mánuðinum, hefur kvartað formlega undan illri meðferð sem hann telur sig sæta í fangelsi, samkvæmt fréttum nýsjálenskra miðla.
Maðurinn hefur verið ákærður fyrir eitt morð og á yfir höfði sér fleiri ákærur vegna árásarinnar. Hann hefur sætt einangrunarvist í fangelsi í nýsjálensku borginni Auckland síðan 16. mars síðastliðinn, daginn eftir árásina.
Sjá einnig: Minntust fórnarlambanna í Christchurch
Nýsjálenski miðillinn Stuff greinir frá því að maðurinn hafi nú sent inn formlega kvörtun til fangelsismálayfirvalda en hann segist hafa verið hlunnfarinn um grundvallarréttindi í fangelsinu. Þannig hafi hann ekki fengið að hringja símtöl og fá heimsóknir, líkt og lög kveða á um.
Heimildarmaður innan fangelsisins segir manninn undir stöðugu eftirliti og að hann njóti hvorki heimsóknarréttar né fái afnot af síma. Kveðið er á um það í nýsjálenskum lögum að fangelsismálayfirvöldum sé heimilt að neita föngum um ákveðin réttindi. Slíkt gildi við tilteknar aðstæður, til að mynda þegar fangar sitja í einangrun af öryggisástæðum.
Árásin sem maðurinn er grunaður um er sú mannskæðasta í sögu Nýja-Sjálands en hann skaut fimmtíu til bana og særði tugi til viðbótar. Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, skipaði í vikunni sjálfstæða og óháða nefnd til að rannsaka árásina en nefndin mun m.a. kortleggja ferðir mannsins á Nýja-Sjálandi.
Morðinginn í Christchurch kvartar undan illri meðferð í fangelsinu

Tengdar fréttir

Vilhjálmur prins heimsækir Nýja-Sjáland
Vilhjálmur prins mun heimsækja Nýja-Sjáland í næsta mánuði til þess að heiðra minningu þeirra fimmtíu sem létust í hryðjuverkaárás í borginni Christchurch.

Minntust fórnarlambanna í Christchurch
Jacinda Ardern var viðstödd athöfnina og hélt ræðu ásamt leiðtogum múslimasamfélagsins og einum sem lifði árásina af.

Morðinginn í Christchurch gaf austurrískum öfgamönnum fé
Ástralskur maður gaf leiðtoga öfgasamtaka andsnúnum innflytjendum í Austurríki jafnvirði um 200.000 króna.