Innlent

Alda Karen gefur Píeta 1,4 milljónir króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Alda Karen Hjaltalín.
Alda Karen Hjaltalín. FBL/ERNIR
Fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín færði í vikunni sjálfsvígsforvarnasamtökunum Píeta rausnarlega gjöf sem hljóðar upp á 1,4 milljónir króna. Um var að ræða ágóða af viðburðinum Life Masterclass: Into Your Mind sem haldinn var í Laugardalshöll í janúar síðastliðnum.

„Við þökkum fyrir okkur. Innilega,“ segja forvarnasamtökin á Facebook-síðu sinni.

Fyrirlestur Öldu Karenar vakti mikla athygli á sínum tíma því í aðdraganda hans sagðist Alda Karen hafa komist að því að fjöldi sjálfsvíga á Íslandi hefði verið mikill árið 2018.

„Alveg bara hrikalega mikið. Þetta er stærsti sjúkdómurinn sem skekur mannkynið,“ sagði Alda Karen sem sagði í kjölfarið að lausnin við þessum vanda væri einfaldur. Þeir sem væru haldnir slíkum hugsunum ættu einfaldlega að segja við sjálfa sig: „Þú ert nóg.“

Fjöldi sérfræðinga steig fram og gagnrýndi þessi orð Öldu Karenar. Þar á meðal Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur sem ræddi málið ásamt Öldu Karen í Kastljósi í aðdraganda fyrirlestursins. Þar greindi Alda Karen í fyrsta sinn frá því að allur ágóði fyrirlestursins myndi renna til Píeta.

Það seldist upp á þennan viðburð en miðinn kostaði tæpar þrettán þúsund krónur.

Alda Karen sagði við Vísi að hún ætlaði sér ekki að greina frá því opinberlega að allur ágóði myndi renna til Píeta.


Tengdar fréttir

Jóna Hrönn gráti næst eftir Kastljós

Ég hef ekki haft tíma í allan vetur til að horfa á fréttir og Kastljós og bara farið inn á netið til að lesa yfir hélstu fréttir. En í gær gerðist það, ég lá skyndilega í sófanum og þá er til umræðu í þættinum orð ungrar konu Öldu Karen um að lykilsetningin til að vinna gegn sjálfsvígum væri "þú ert nóg“.

Gera grín að peningakossum Öldu Karenar

Fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín heldur úti nokkuð virkri Facebook og Instagram síðu þar sem hún meðal annars sýnir fylgjendum sínum ákveðna lífslykla eins og hún kallar það sjálf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×