Samið var um krónutöluhækkanir launa í þeim samningum sem skrifað var undir í fyrrakvöld og ná til alls þorra fólks á almenna vinnumarkaðnum til ársloka árið 2022.
Krónutöluhækkanirnar verða mismiklar hjá þeim sem einungis fá greidd taxtalaun og þeim sem eru á launum sem eru hærri en hæstu launataxtar, nema á þessu ári því allir fá 17.000 króna launahækkun frá og með 1. apríl síðast liðnum.
Á meðfylgjandi mynd sjáum við krónutöluhækkanirnar hjá einstaklingi með 300 þúsund króna lágmarkslaun sem hækka um 5,7 prósent í þessum mánuði og síðan um rúmlega sjö prósent á næstu þremur árum.
Krónutöluhækkanirnar eru lægri á launum yfir taxta og eru hér tekin dæmi af sex, sjö, átta og níuhundruð þúsund króna launum í dag. Þau munu hækka um 2 til 2,9 prósent á þessu ári en að auki fær allt launafólk 26 þúsund króna viðbótar orlofsuppbót í eitt skipti í maí á þessu ári.
Ef horft er síðan á dæmin fyrir árin 2020 til 2022 ssést að árlegar launahækkanir hjá fólki með hærri laun en taxtalaun verða á bilinu 1,7 prósent til 2,9 prósent á ári. Þær hækkanir ná ekki að halda í við verðbólgu eins og hún hefur verið á undanförnum tveimur árum með örfáum mánaðarlegum undantekningum. En í lok síðasta árs var verðbólgan 3,3 prósent og 2,9 prósent í lok síðasta mánaðar.
Í þessum dæmum er ekki tekið tillit til almennra skattalækkana sem munu ná til allra tekjuhópanna hér að ofan, en þó meira til lægstu launanna, eins og hækkun barna- og húsnæðisbóta.
Þá er reiknað með að kjarasamningarnir stuðli að lækkun vaxta og þar með verðbólgu. Desember- og orlofsuppbætur launafólks verða einnig hækkaðar umtalsvert og krónutöluhækkanir launa geta orðið hærri með auknum hagvexti.