Watford í bikarúrslit eftir ótrúlega endurkomu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Deulofeu skoraði tvívegis gegn Wolves.
Deulofeu skoraði tvívegis gegn Wolves. vísir/getty
Watford er komið í úrslit ensku bikarkeppninnar eftir 3-2 sigur á Wolves á Wembley í dag. Watford lenti 0-2 undir en kom til baka og tryggði sér sigurinn í framlengingu.

Þetta er aðeins í annað sinn sem Watford kemst í bikarúrslit. Árið 1984 tapaði liðið 2-0 fyrir Everton í bikarúrslitum.

Úlfarnir komust yfir á 36. mínútu þegar Matt Doherty skallaði fyrirgjöf Diegos Jota í netið. Staðan var 0-1 í hálfleik.

Á 62. mínútu átti Doherty háa sendingu á Raúl Jímenez sem tók boltann niður og skilaði honum í netið. 

Fjórum mínútum síðar kom Gerard Deulofeu inn á sem varamaður og hann breytti gangi leiksins. Spánverjinn minnkaði muninn með frábæru skoti á 79. mínútu og hleypti spennu í leikinn.

Í uppbótartíma fiskaði Troy Deeney, fyrirliði Watford, vítaspyrnu. Hann fór sjálfur á punktinn og þrumaði boltanum framhjá John Ruddy í marki Wolves. Staðan 2-2 og því þurfti að framlengja.

Mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar skoraði Deulofeu annað mark sitt og þriðja mark Watford með skoti í fjærhornið eftir sendingu frá Andre Gray.

Þetta reyndist sigurmarkið í leiknum og Watford því komið í bikarúrslit. Watford mætir Manchester City í úrslitaleiknum 18. maí.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira