Manúela er gestur vikunnar í Einkalífinu en Manúela virðist oft vera á milli tannanna á Íslendingum. Hún segist sjálf vera misskilin og því sé hún nokkuð oft á milli tannanna á fólki.
„Ég hef alltaf reynt að lifa lífinu bara fyrir mig og geri bara hluti sem gera mig glaða og ánægða. Stundum fer það kannski illa í fólk sem fer ekki út fyrir þægindarammann. Svo getur líka vel verið að ég sé dugleg að stuða fólk.“
Hún segist hafa tekið eftir því í gegnum árin að sumir einstaklingar á Íslandi séu oftar í umræðunni hjá Íslendingum.
„Ég reyni að hugsa ekki mikið um það og kippi mér ekki upp við það. Það eru sumir sem fá meiri athygli en aðrir og það er stundum neikvæð athygli. Stemningin í samfélaginu er þannig að það er skemmtilegra að lesa eitthvað krassandi. Ég hef t.d. aldrei smakkað áfengi og það er lítið talað um það. Ég hef fengið að heyra það í gegnum Snapchat og fleiri miðla að ég sé ekki góð fyrirmynd. Persónulega finnst mér ég mjög góð fyrirmynd hvað svo margt varðar. Mér finnst oft leiðinlegt að neikvæðu hlutirnir eru dregnir fram, en jákvæðu hlutirnir ekki eins áberandi.“
„Það eru margir búnir að benda á þetta, bæði erlendis og hérna heima. Þetta átti aldrei að fara svona langt hjá mér og voru bara mínar pælingar,“ segir Manúela en viðbrögðin komu henni á óvart.
„Mér fannst þetta hræðilegt. Mér finnst alltaf rosalega ljótt að sjá hvað fólk leyfir sér að segja um aðra manneskju. Nú hef ég gengið í gegnum margt í fjölmiðlum, en þetta var með því versta. Þetta er oft rosalega erfitt, að taka við svona opinberu níði. Þegar fólk er bara með hreina og beina aftöku á annarri manneskju sem það hefur kannski aldrei hitt, þá finnst mér það mjög gróft. Ég á börn og ég á fjölskyldu. Ég er rosalega misskilin manneskja og ég heyri reglulega þegar ég kynnist nýju fólk að ég sé allt öðru vísi en það bjóst við.“
Í þættinum ræðir Manúela einnig um athyglina sem fylgdi því að vera Ungfrú Ísland árið 2002, um þá jákvæðu og neikvæðu umræðu sem fylgir henni, um hlutverk hennar í Miss Universe og móðurhlutverkið. Spennandi tímar eru einnig framundan hjá Manúelu og er nýtt verkefni í pípunum.