Rannsókn Mueller beindist að afskiptum útsendara rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum árið 2016, meintu samráði þeirra við framboð Trump og hvort að Trump hefði reynt að hindra framgang réttvísinnar.
William Barr, dómsmálaráðherra, hélt blaðamannafund um skýrsluna í morgun að bandarískum tíma, áður en hún var gerð aðgengileg Bandaríkjaþingi, almenningi og fréttamönnum. Þar lýsti hann því yfir að rannsókn Mueller hefði staðfest að ekkert ólöglegt samráð hefði átt sér stað á milli framboðs Trump og Rússa.
Skýrslan sjálf virðist þó ekki eins afdráttarlaus, hvorki um meint samráð framboðsins við Rússa, né um tilraunir forsetans til þess að hindra framgang rannsóknarinnar. Þá staðfestir Mueller að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016, nokkuð sem Trump forseti hefur verið tregur til að viðurkenna.
Ekki nóg að sýna fram á samskipti og viðbrögð
Um samráðið segir Mueller að rannsókn hans hafi leitt í ljós fjölda tenginga á milli einstaklinga sem tengjast rússnesku ríkisstjórninni og einstaklinga sem tengjast framboði Trump. Þær vísbendingar hafi þó ekki verið nægjanlegar til að byggja ákærur á.Mat Mueller var að ekki hafi verið nóg að sýna fram á að framboð Trump hafi vitað af tilraunum Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar og brugðist við þeim. Bandamenn Trump hefðu þurft að semja um það sérstaklega við Rússana að brjóta lög.
„Þó að rannsóknin hafi sýnt fram á að rússneska ríkisstjórnin taldi sig hagnast á að Trump yrði forseti og hafi unnið að því að tryggja þá niðurstöðu og að framboðið bjóst við að græða á stolnum upplýsingum sem voru birtar fyrir tilstilli Rússa í kosningunum, sýndi rannsóknin ekki fram á að félagar í framboði Trump hafi lagt á ráðin eða samhæft sig við rússnesku ríkisstjórnina í afskiptum hennar af kosningunum,“ segir í skýrslunni.
Þá kemur fram að Trump hafi persónulega lagt fast að starfsmönnum framboðsins að komast yfir tölvupósta Hillary Clinton, mótframbjóðanda síns, sem Rússar höfðu stolið. Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, bar vitni um að Trump hafi ítrekað beðið um póstana á meðan á kosningabaráttunni stóð. Flynn hafi í kjölfarið talað við fjölda fólks til að reyna að komast yfir póstana.
Vísir heldur áfram að fjalla um skýrslu Roberts Mueller í dag. Fjallað er um hluta skýrslunnar sem tengist meintum tilraunum Trump forseta til að hindra framganga réttvísinnar hér.