Bandaríska tímaritið Time birti í dag árlegan lista sinn yfir 100 áhrifamesta fólk heims. Að þessu sinni er bandaríska fréttakonan Gayle King meðal þeirra sem prýða forsíðuna en hún er í hópi áhrifafólksins sem tímaritið valdi.
King stýrir sjónvarpsþættinum „CBS This Morning“ en í byrjun mars tók hún eftirminnilegt viðtal við tónlistarmanninn R. Kelly þar sem hún ræddi við hann um ásakanir á hendur honum. R. Kelly brást ókvæða við og tók æðiskast í miðju viðtali. Viðbrögð King við skapofsa söngvarans og frammistaða hennar í erfiðum aðstæðum vakti ekki síst athygli.
Hún náði að halda ró sinni og lét framferði R. Kellys ekki slá sig út af laginu.
„Ertu alveg viss?“
Þegar King var sagt frá því að hún ætti að prýða forsíðuna tímaritsins sem ein af áhrifamestu manneskjum heims var hún efins í fyrstu og spurði: „Ertu alveg viss?“
Í þessu tilfelli skrifaði kvikmyndagerðakonan Ava DuVernay um King. DuVernay sagði að King væri ein albesta fjölmiðlakona allra tíma og að hún byggi yfir einstakri viðtalstækni sem væri einungi á færi hinna allra bestu í bransanum.
King sagðist vera djúpt snortin.
Hér fyrir neðan má horfa á viðtal King við R. Kelly úr CBS This Morning.
„Ég þurfi að lesa þetta tvisvar. Þessi texti fékk mig bara til að hugsa um hvað ég elska þetta starf mikið og hversu heitt ég elska fólkið sem ég vinn með,“ sagði Gayle King og sagði viðurkenninguna hafa mikla þýðingu fyrir sig.
Sjá nánar: Umfjöllun Time um hundrað áhrifamestu einstaklinga í heimi
