Skoðun

Of strangar reglur um Frístundakortið

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Frístundakort er 50.000 króna styrkur frá Reykjavíkurborg til barna á aldrinum 6-18 ára og gildir í eitt ár í einu. Systkini geta ekki notað sama Frístundakort. Hægt er að nota Frístundakortið til að borga fyrir þátttöku í íþróttum, listum og tómstundum. Það er einungis hægt að nota Frístundakortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Markmið Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík geti tekið þátt í frístunda­starfi. Félagslegar aðstæður og efnahagur eiga ekki að skipta máli, segir á vef borgarinnar. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi.

Allt of strangar reglur

Reglur um Frístundakort eru allt of strangar. Nýtingartölur sem eru skráðar eftir póstnúmerum eru ekki nógu góðar. Kortanýting er 69% til 90%. Í borgarstjórn hef ég reynt að leggja fram tillögur um að notkunarskilyrði verði rýmkuð. Það ætti t.d. að vera sjálfsagt að systkini geti notað sama Frístundakortið henti það þeim. Ekki er heldur hægt að nota Frístundakortið í starfi félagsmiðstöðvanna en þar eru viðburðir og ferðir ekki alltaf gjaldfrjálsar. Ekki er hægt að nota Frístundakortið í niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga. Eins og vitað er þá hafa sumir foreldrar ekki efni á námskeiði fyrir barn sitt þrátt fyrir niðurgreiðslu. Kortið ætti ekki einungis að ná yfir frístundir heldur allt sem kallar á útiveru og hreyfingu. Markmið borgarinnar ætti að vera að rýmka reglur kortsins það mikið að það verði fullnýtt. Taka ætti allt sem vitað er að geri börnum gott andlega og líkamlega inn í notkunarskilgreininguna. Ljóst er að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð þarf að endurskoða þessar reglur.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×