Í ljós hefur komið að FBI fékk heimild til að hlera Carter Page, kosningastjóra Trump, en þó einungis eftir að hann hætti hjá framboðinu. Samkvæmt New York Times er einnig mögulegt að FBI hafi notað heimildarmann til að fá upplýsingar um aðila sem komu að framboðinu en það hefur aldrei fengist staðfest.
Trump hefur ítrekað sagt að FBI og leyniþjónusturnar hafi njósnað um sig til að reyna að koma í veg fyrir að hann yrði forseti og hefur hann jafnvel lýst rannsókninni sem tilraun til valdaráns. Þessar ásakanir hans hefur hann notað til að kalla eftir rannsóknum á andstæðingum sínum.
So, it has now been determined, by 18 people that truly hate President Trump, that there was No Collusion with Russia. In fact, it was an illegal investigation that should never have been allowed to start. I fought back hard against this Phony & Treasonous Hoax!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 10, 2019
Barr sagðist ætla að vinna með Christopher A. Wray, yfirmanni FBI, til þess að komast að uppruna Rússarannsóknarinnar svokölluðu en hann benti einnig á að bæði þingið og innra eftirlit FBI hefðu rannsakað hvort eitthvað ólöglegt eða óviðeigandi hefði átt sér stað við rannsóknina. Hann vildi þó fara yfir niðurstöður þeirra og sjá hvort einhverjum spurningum væri ósvarað.
Líklegt þykir að ummæli Barr, sem eru í takt við ummæli Trump, muni valda usla meðal Demókrata sem hafa þegar sakað hann um að vera leppur Trump og reyna að nota ráðherrastöðu sína til að verja forsetann. Sérstaklega eftir að Rússarannsókninni lauk og Barr gaf út eigið minnisblað um eigin niðurstöður á rannsókninni.
Sjá einnig: Segir túlkun Barr á Mueller-skýrslunni bæði hrokafulla og yfirlætislega
William Barr var skipaður í embætti Dómsmálaráðherra í síðasta mánuði. Hann var á árum áður ráðherra í forsetatíð George H.W. Bush en Trump tilnefndi hann eftir að hann rak Jeff Sessions úr embættinu. Þá hafði Trump lengi verið reiður út í Sessions vegna þess að hann lýsti sig vanhæfan varðandi Rússarannsóknina eftir að hann sagði ósatt um fundi með Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Barr sendi í fyrra 20 tuttugu blaðsíðna minnisblað óumbeðinn til Dómsmálaráðuneytisins þar sem hann gagnrýndi rannsókn Mueller harðlega og sagði hana hafa farið úr böndunum. Hann deildi minnisblaðinu einnig með lögmönnum Trump.
Síðan hann birti fjögurra blaðsíðna samantekt sína um 400 blaðsíðna skýrslu Robert Mueller hafa Demókratar kallað eftir því að skýrslan sjálf verði opinberuð. Barr segist ætla að birta skýrsluna að hluta til þar sem búið verður að gera hluta hennar ólæsilega. Það gæti jafnvel gerst í næstu viku.