Bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporation krefst þess að fá afhenta Airbus flugvél sem Isavia kyrrsetti við gjaldþrot WOW air í lok síðasta mánaðar. Héraðsdómur Reykjaness tók í dag fyrir dómsmál bandaríska félagsins gegn Isavia.
Oddur Ástráðsson, lögmaður Air Lease Corporation, segir að félagið fari fram á skaðabætur eftir að vélin var kyrrsett sem trygging fyrir tveggja milljarða króna skuld WOW air við Isavia. Eigandi vélarinnar tapi tugum milljóna á hverjum degi sem hún er ekki í notkun. Kyrrsetning vélarinnar sé ólögmæt og brjóti gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár.
Lögmenn Isavia telja sig vera í fullum rétti. Héraðsdómur veitti Isavia frest til næstkomandi þriðjudags til að skila greinargerð vegna málsins.
