Þótt búist sé við vélunum eftir miðjan dag á morgun ríkir óvissa um tímasetningar, samkvæmt upplýsingum frá flugþjónustunni ACE FBO, sem annast afgreiðslu þeirra hérlendis. Þannig er hópflugið mjög háð veðri og vindum en veðurspá á Grænlandi, þaðan sem vélarnar koma í þessum áfanga, þótti tvísýn í dag.
Áformað er að flugflotanum verði lagt norðan við Loftleiðahótelið. Stefnt er að því að almenningi gefist kostur á að skoða vélarnar á þriðjudag. Áætlað er að þær fljúgi áfram til Skotlands á miðvikudag.

Þannig segir flugáhugamaðurinn Pétur P. Johnson að á stríðsárunum hafi þristar yfirleitt ekki verið fleiri en tveir og tveir saman í flugi yfir hafið til Íslands, en telur hugsanlegt að finna megi dæmi um að minni orustuvélum hafi verið flogið saman í svo stórum hópum til landsins.
Forsmekkinn mátti sjá á Reykjavíkurflugvelli í kvöld þegar DC-3 vélin „Clipper Tabitha May“ lenti þar klukkan 18.10 eftir flug frá Narsarsuaq. Hún er einskonar undanfari hópsins. Stefnt er að því að hún haldi áfram för sinni áleiðis til Bretlands klukkan 10 í fyrramálið til að taka þátt í flugsýningum á Duxford-flugminjasafninu norðan við London fram til 1. júní.

Clipper Tabitha May var smíðuð árið 1945 fyrir bandaríska herinn, sem seldi hana ónotaða til einkaaðila og var hún nýtt í atvinnuflugi allt fram til ársins 1995. Síðar eignuðust áhugamenn um sögu Pan Am-flugfélagsins vélina, gerðu hana upp og máluðu í litum félagsins, eins og þeir voru á stríðsárunum.
Ráðamenn Þristavinafélagsins vonast til að hægt verði að fljúga íslenska þristinum Páli Sveinssyni frá Akureyri til Reykjavíkur á morgun til heiðurs flugflotanum. Það er þó háð því að flugvirkjum takist í tæka tíð að lagfæra olíuleka á öðrum hreyflinum, að sögn Tómasar Dags Helgasonar, formanns Þristavinafélagsins.
Fræðast má um leiðangurinn á heimasíðu D-Day Squadron.