Sigmundur kom fram í kvöldfréttum á RÚV í gær þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum yfir þriðja orkupakkanum og sagði fund utanríkismálanefndar með Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins hafa verið óvæntan og þingmenn Miðflokksins ekki hafa verið látnir vita af honum.
Sigmundur sætti harðri gagnrýni frá þingmönnum ýmissa stjórnmálaflokka, þar á meðal Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingsmann Vinstri grænna, Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanns utanríkismálanefndar auk Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Í færslu sinni sagði Sigmundur RÚV jafnan hafa áhyggjur af stjórnmálamönnum sem hlýddu ekki kerfinu og gerði slíka menn tortryggilega og benti hann RÚV á það að jafnan vantaði einhverja þingmenn á nefndarfundi. Hann sagði þó í kvöldfréttum að hefðu þingmenn Miðflokksins vitað af fundinum hefðu þeir mætt á hann en bæði Áslaug og Logi bentu á að fundarboð hafi verið sent út bæði í SMS-skilaboðum og tölvupósti og á skjáskoti sem Logi birti má sjá að allir nefndarmeðlimir utanríkismálanefndar hafi fengið póstinn sendan.
„Svo sé ég að VG eru búnir að setja áburðardreifarana sína af stað. M.a. þingmann sem hefur aldrei skorast undan slíku frá því að hann var blaðamaður á Fréttablaðinu og notaði ófáar forsíður og aðrar greinar til að útskýra hvað það væri glatað hjá mér að þvælast fyrir Icesave,“ sagði Sigmundur í færslunni. Kolbeinn Óttarsson Proppé var blaðamaður hjá Fréttablaðinu í nokkur ár.