„Samkvæmt úthlutunargerð var skiptatrygging að fjárhæð kr. 350.000 endurgreidd að fullu, auk þess sem kr. 294.271.293 greiddust upp í veðkröfur. Þá greiddust kr. 23.504.285 upp í almennar kröfur, eða 2,83 hundraðshlutar. Ekkert fékkst greitt upp í eftirstæðar kröfur,“ eins og því er lýst í Lögbirtingablaðinu.
Faxafen ehf. var stofnað árið 2004 og var sem fyrr segir stofnað til að halda utan um rekstur fasteignar Hraðbrautar, en skólinn var starfræktur til ársins 2012. Samkvæmt ársreikningi Faxafens ehf. fyrir árið 2014 nam tap félagsins það árið rúmlega 24,5 milljónum króna og var bókfært eigið fé í árslok neikvætt um næstum 590 milljónir króna. Skuldir félagsins námu rúmlega 676 milljónum króna, að langstærstum hluta við Arion banka, og voru ekki nema um 114 þúsund krónur eftir í félaginu í árslok 2014.
Sjá einnig: Greiddu sér 177 milljónir í arð
DV greindi ítarlega frá málefnum skólans á sínum tíma en í umfjöllun blaðsins kom meðal annars fram að þau Ólafur og Borghildur hafi greitt sér 105 milljón króna arð út úr Faxafeni ehf. á árunum 2005 til 2008. Arðgreiðslurnar voru tilkomnar vegna leigusamnings sem rekstrarfélag Hraðbrautar, Hraðbraut ehf., sem jafnframt var í þeirra eigu, gerði við Faxafen ehf. Hjónin greiddu sér jafnframt tugmilljóna arð út úr Hraðbraut ehf.
Arðgreiðslurnar voru gagnrýndar á sínum tíma og tók Ólafur til varna á Youtube, þar sem hann sagði ekkert athugavert við rekstur skólans.
Heimildir Stundarinnar herma hins vegar að Hraðbraut hafi verið skuldlaus við ríkið. Skólinn hafi átt kröfu á hendur hinu opinbera því ríkið greiddi of lítið með hverjum nemenda á árunum 2010 til 2012. Skuld skólans við menntamálaráðuneytið hafi því að endingu verið skuldajöfnuð á móti þessari kröfu Hraðbrautar.
Menntamálaráðuneytið óskaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri skólans árið 2010 eftir að upplýsingar lágu fyrir um fyrrnefndar arðgreiðslur. Niðurstaða úttektarinnar var á þá leið að Hraðbraut hafi ekki haft bolmagn til að greiða sér arð, auk þess sem skólinn hafi fengið of háar fjárveitingar frá hinu opinbera. Þá voru ekki gerðir kjarasamningar við kennara skólans og voru þeir því á umtalsvert lægri launum en kollegar þeirra í öðrum framhaldsskólum.
Á meðal þess sem Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við var að 37 prósent af rekstrarútgjöldum skólans fóru í laun en í framhaldsskólum á vegum ríkisins er hlutfall launakostnaðar að jafnaði tvöfalt hærra eða um 75 prósent. Annar kostnaður, til að mynda við húsaleigu, var mun hærri en sem fyrr segir leigði skólinn húsnæði sitt af félagi þeirra hjóna.
Gerð var tilraun til að blása lífi í Hraðbraut árið 2014 án nokkurrar aðkomu ríkisins. Til stóð að námið myndi kosta 890 þúsund krónur á ári og hefðu nemendur því greitt 1780 þúsund krónur fyrir stúdentsprófið, enda var einkennismerki Hraðbrautar að útskrifa nemendur á tveimur árum.
Ekkert var þó af því. Aðeins 30 nemendur skráðu sig til leiks og þrátt fyrir að tekist hafi að smala saman í eina bekkjardeild hafi ekki nógu margir greitt skólagjöld til að rekstur skólans stæði undir sér.