Skoðun

Fölsk lög

Þórarinn Þórarinsson skrifar
„Hvers vegna eru lög og regla, til að fela hitt og þetta?“ Þessi spurning Bubba er brýn þessa dagana þegar smáborgaralegur vandlætingarkórinn reynir að gera heiðarlegt fólk tortryggilegt og ómarktækt með lagakrókum og regluflækjum.

Stundum brýtur nauðsyn lög enda virðast þessi mannanna furðuverk oft hönnuð sem skálkaskjól. Hann er því eðlilega langur listinn yfir fólk sem hefur í gegnum tíðina breytt heiminum og bætt hann með lögbrotum í nafni sannleikans, réttlætis og mannréttinda.

Tilhneigingin til þess að fordæma og refsa slíku andófsfólki í byrjun er rík en sagan dæmir okkur öll og styðst hvorki við lög né reglur og slettur eftir skítkast skolast fljótt af. Þau þurfa því ekki að grenja út uppreist æru og standa að lokum uppi sem sigurvegarar.

Heimurinn væri tæplega skárri ef „krimmar“ á borð við Mandela, Gandhi, Martin Luther King, Rósu Parks, Julian Assange og Chelsea Manning og fleiri hefðu ekki tekið af skarið á ögurstundu.

Bitlaus siðanefndarúrskurður þaggar heldur ekki niður í Þórhildi Sunnu sem tvíeflist bara við kerfislægt mótlætið. Afleiðingar ljótra orða sem féllu á Klaustri gufa ekki upp þótt Bára verði að eyða ólöglegum subbuskapnum. Það er að vísu ekki hægt þar sem allt mun þetta varðveitast í munnlegri geymd um ókomna tíð.

Skepnuskapur Ísraela í Palestínu verður líka áfram jafn viðbjóðslegur og raunverulegur þótt Hatari verði dæmdur úr leik og Ísland í keppnisbann á þessum ólympíuleikum meðalmennskunnar fyrir þær skelfilegu sakir að lyfta bannfærðum veifum í meintu lýðræðisríki og skyggja aðeins á falska gleðina í Tel Avív.

Kærleikurinn mun sigra!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×