Fótbolti

Hamrén: „Trúi því að þetta séu bestu leikmennirnir til þess að ná í sex stig“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsþjálfari Íslands Erik Hamrén sagði það áhættu að velja Kolbein Sigþórsson inn í landsliðshópinn fyrir komandi leiki við Albaníu og Tyrkland.

Kolbeinn er kominn aftur í hópinn eftir meiðsli ásamt þeim Jóni Daða Böðvarssyni og Emil Hallfreðssyni.

„Ég tek smá áhættu með því að velja hann, en hann hefur heillað með AIK. Við þurfum að sjá hvað gerist í næstu viku,“ sagði Hamrén þegar hópurinn var kynntur í dag.

„Ég trúi því að þeir leikmenn sem við höfum í hópnum núna eru þeir bestu til þess að ná í sex stig úr þessum leikjum.“

„Alfreð og Björn Bergmann eru meiddir og ekki í myndinni en við erum með aðra leikmenn í umræðunni.“

Ísland er með tvö stig eftir þrjá leiki í riðlinum í undankeppni EM eftir sigur á Andorra og slæmt tap gegn Frökkum í mars. Nú spilar Ísland fyrstu heimaleikina í riðlinum, við Albaníu og Tyrkland.

Nokkuð hefur verið rætt um það hvort Hannes Þór Halldórsson haldi stöðu sinni sem aðalmarkvörður Íslands í þessum leikjum, en þeir Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson hafa spilað vel síðustu misseri.

Hamrén vildi ekki gefa það út hver verði í markinu.

„Staðan er önnur nú en þegar við komum saman síðast, þá voru þeir Hannes og Alex ekki að spila. Þeir hafa báðir verið að spila núna og Ögmundur var góður í Grikklandi.“

„Það kemur í ljós á leikdag hver verður valinn,“ sagði Erik Hamrén.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×