Viðskipti innlent

Icelandair segir upp flug­mönnum vegna 737 MAX vélanna

Andri Eysteinsson skrifar
Ráðningarsamningum við 24 flugmenn Icelandair hefur verið slitið vegna 737 Max vélanna frá Boeing.
Ráðningarsamningum við 24 flugmenn Icelandair hefur verið slitið vegna 737 Max vélanna frá Boeing. Vísir/Vilhelm
Icelandair hefur slitið ráðningarsamningi við 24 flugmenn og stöðvað þjálfun 21 nýliða sem til stóð að hæfu störf sem flugmenn á Boeing 737 MAX vélar félagsins í sumar.

Flugmennirnir 24 höfðu hafið störf áður en að vélarnar voru kyrrsettar í kjölfar flugslysa í Eþíópíu og Indónesíu vegna öryggisgalla í vélunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Ákvörðunin var sögn Icelandair tekin í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir MAX vélunum fyrr en um miðjan september næstkomandi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ákvörðunina vera þungbæra en nauðsynlega. „Það er þungbært að þurfa að grípa til þessarar sársaukafullu aðgerðar en við teljum það nauðsynlegt í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem komnar eru upp vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX vélanna, Kyrrsetningin hefur talsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins og við verðum að leita allra leiða til að hagræða og draga úr kostnaði,“ sagði Bogi.

Þá segist Bogi vonast til þess að geta gefið flugmönnunum kost á starfi á ný en það komi í ljós þegar málin skýrast varðandi Boeing 737 MAX vélarnar.

„Við vonumst þó til að geta gefið þessum flugmönnum kost á starfi hjá fyrirtækinu á ný þegar undirbúningur fyrir næsta sumar fer af stað en það kemur betur í ljós þegar málin skýrast varðandi MAX vélarnar,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×