Landsréttur stytti í dag fangelsisdóm yfir Þorsteini Halldórssyni, dæmdum kynferðisbrotamanni, úr sjö ára fangelsi í fimm og hálfs árs fangelsi. Þorsteinn, sem er á sextugsaldri, var í maí í fyrra dæmdur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn ungum dreng. Drengurinn var á aldrinum 15-18 ára þegar brotin áttu sér stað.
Útvegaði Þorsteinn drengnum fíkniefni og braut á honum.
Landsréttur kvað upp dóm sinn á þriðja tímanum en hann verður birtur á vefsíðu Landsréttar klukkan 15:30. Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Þorsteins, staðfestir dómsniðurstöðuna. Hann hafði þó ekki séð dóminn þegar blaðamaður náði af honum tali.
Í dómsniðurstöðu Landsréttar er sérstaklega tekið fram að brotaþoli hafi sóst eftir samskiptum við ákærða og að vera í vímu. Taldist ákæruvaldið því ekki hafa sýnt fram á að í háttsemi Þorsteins hefði falist ofbeldi eða ólögmæt nauðung í formi sjálfræðissviptingar.
Var Þorsteinn því aðeins dæmdur fyrir brot á 2. mgr. 194 greinar almennra hegningarlaga en ekki líka 1. mgr. eins og var í héraði.
Dóminn má lesa á vef Landsréttar.

