Fótbolti

Fékk eins árs bann fyrir að girða niður um sig fyrir framan dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guilia Nicastro hefur dæmt fjölda leikja á unglingamótum.
Guilia Nicastro hefur dæmt fjölda leikja á unglingamótum. mynd/instagram-síða Guiliu Nicastro
Fjórtán ára ítalskur drengur hefur verið dæmdur í eins árs bann fyrir að girða niður um sig fyrir framan kvenkyns dómara.

Atvikið átti sér stað í leik Miranese og Treporti á móti U-14 ára drengja í Mestre í Feneyjum.

Leikmaður Treporti var ósáttur eftir að dómarinn, Giulia Nicastro, dæmdi hornspyrnu á hans lið.

Leikmaðurinn leysti þá niður um sig og var með klámkjaft við Nicastro. Það eina sem hann hafði upp úr krafsinu var rautt spjald.

Raunum Nicastro var þó ekki lokið því stuðningsmenn Treporti hreyttu ókvæðisorðum í hana eftir að hún rak leikmanninn út af.

Hann fékk eins árs bann frá mótshöldurum. Gabriele Gravina, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, segir bannið of stutt og ætlar að fara með málið fyrir áfrýjunardómstól.

Treporti hefur beðið Nicastro afsökunar á hegðun leikmannsins og stuðningsmannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×