Hinn 73 ára gamli landsliðsþjálfari Albaníu, Edy Reja, var alvörugefinn á blaðamannafundi albanska liðsins í Laugardalnum í hádeginu.
Reja er að fara að stýra sínum fyrsta leik með Albaníu en hann var ráðinn á dögunum er Albanir ráku Christian Panucci. Ákvörðun sem kom á óvart. Þeir réðu Reja sem hefur ekki þjálfað síðan 2016.
„Ég er að reyna að koma með nýtt leikskipulag þar sem allir taka þátt í sókninni og sóknarleikurinn byrjar í vörninni. Það þarf að vera meiri jákvæðni og trú í okkar leik,“ sagði Reja.
„Það hefur vantað sjálfstraust í liðið er það nálgast mark andstæðinganna. Því verður að breyta. Liðið er að fá færi en nýtir þau ekki.“
Reja virðist boða breytingar í leik albanska liðsins sem hann vill sjá færa sig framar á völlinn.
„Það er ekki mín fótboltaheimspeki að verjast. Ég vil spila til sigurs. Við vitum að Íslendingarnir eru sterkir í loftinu sem og í föstum leikatriðum. Þeir eru líka með veika punkta sem við verðum að nýta okkur,“ segir Reja en hann ætlar ekki að bíða og horfa á íslenska liðið á morgun.
„Ég óttast mest liðsheildina hjá íslenska liðinu og þekki Gylfa Sigurðsson vel sem er sterkur og teknískur. Ég vil ekki bíða í þessum leik. Ég vil að við höldum boltanum og sækjum. Séum það lið sem er meira með boltann.“
Fótbolti