Kjörstjórn hefur hafnað lista hennar og gefið henni fremur knappan frest til að til að leggja fram nýtt framboð. Sá frestur er veittur til 10. þessa mánaðar og segir Heiðveig, miðað við að þar inni í sé Hvítasunnuhelgi, sé borin von að safna saman, þriðja sinni, 100 meðmælum. „Við látum ekki bjóða okkur þetta,“ segir Heiðveig María í samtali við Vísi. Og það liggur alveg fyrir að henni er misboðið.
Segja listann of einsleitan
Átök innan Sjómannafélagsins vegna stjórnarkjörs eiga sér orðið langa sögu. Heiðveig hugðist bjóða sig og sinn lista fram á síðasta aðalfundi. En, listinn var ekki samþykktur og var Heiðveig María rekin úr félaginu vegna gagnrýni sinnar á sitjandi stjórn undir forystu Jónasar Garðarssonar. Nýr listi var sjálfkjörinn á síðasta aðalfundi, sem fram fór um síðustu áramót, sem Bergur Þorkelsson gjaldkeri félagsins, leiðir.![](https://www.visir.is/i/4265F791A257EE851385D44BC9C0C9F2C8A3E846EF6EC6C2398AD3E8D08FCCE4_390x0.jpg)
Í bréfi sem kjörstjórn sendi Heiðveigu Maríu eru tíundaðar ástæður þess að ekki sé hægt að samþykkja framboðið, meðal annars á þeim forsendum að á lista hennar, B-lista til trúnaðarmannaráðs, séu „engir félagsmenn sem starfa á öðrum kjarasamningum félagsins, við Hafrannsóknarstofnun eða á ferjum.“ Segir að horfa verði til þess að ekki sé einsleitni á lista.
Heiðveig skorar á kjörstjórn að breyta um kúrs
Heiðveig María segir þetta huglægt mat, það sjái hver maður, sem hún hafni. Og nú séu allar félagslegar leiðir fullreyndar. Kosningar áttu að fara fram 5. til 19. júní.„En, þeir eru að karpa um þetta ákvæði, hvort framboðið sé gilt út frá einhverjum rökum og forsendum sem þeir búa til,“ segir Heiðveig sem var farin að vinna að framboðsmálum og segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi úr öllum áttum.
„Jájá, það er allt vitlaust. Allir að spyrja okkur hvernig þetta standi. Við byrjum á því að gefa kjörstjórn kost á því að endurskoða þessa ákvörðun,“ segir Heiðveig sem sent hefur kjörstjórninni harðorð mótmæli.