Erlent

Viður­kennir ó­sigur bláu blokkarinnar en vill halda for­sætis­ráð­herra­stóli

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Forsætisráðherra viðurkennir ósigur bláu blokkarinnar og heldur á fund drottningar á morgun til að biðjast lausnar.
Forsætisráðherra viðurkennir ósigur bláu blokkarinnar og heldur á fund drottningar á morgun til að biðjast lausnar. Vísir/ap
Í ávarpi sem Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, flutti í Kristjánsborgarhöll þegar rétt undir 99% atkvæða voru talin viðurkenndi hann ósigur bláu blokkarinnar en sagðist þó vonast eftir ríkisstjórn þvert yfir miðjuna með sig áfram sem forsætisráðherra.

Lars sagði að þrátt fyrir að Venstre hefði fengið ágætis kosningu sé ljóst að í Danmörku hefði orðið ákveðin valdatilfærsla frá hægri væng yfir á þann vinstri. Hann er búinn að hringja í Mette Frederiksen, formann Jafnaðarmannaflokksins, og viðurkenna ósigur. Hann hyggst halda á fund drottningarinnar á morgun og biðjast lausnar ríkisstjórnarinnar.

Venstre, flokkur forsætisráðherra, bætti við sig fjórum prósentustigum í fylgi og níu þingsætum frá síðustu þingkosningum en það voru aðrir hægri flokkar sem biðu afhroð og urðu til þess að ekki líklega verður ekki hægt að mynda ríkisstjórn til hægri. Þannig tapaði Danski þjóðarflokkurinn 21 af 37 þingsætum sínum á milli kosninga.

Bláa blokkin er með 75 þingsæti en sú rauða 91 þegar 99 % atkvæða eru talin.

Mette stendur með pálmann í höndunum.Vísir/getty

Mette stendur með pálmann í höndunum

Mette, sem útlit er fyrir að verði yngsti forsætisráðherra Danmerkur frá upphafi, er eini formaður stjórnmálaflokks sem á eftir að halda ávarp. Hún er nú á leiðinni til Kristjánsborgarhallar til að bregðast við niðurstöðum dönsku þingkosninganna.

Jafnaðarmannaflokkurinn, með Mette í broddi fylkingar, þykir augljós sigurvegari kosninganna en flokkurinn hlaut 25,9% og tryggði sér 48 þingsæti í kosningunum. Mette er því í öflugri stöðu fyrir komandi stjórnarmyndunarviðræður því að félagshyggjuflokkarnir eru með öruggan meirihluta.

Mette hefur lýst því yfir í kosningabaráttunni að hún hefði hug á því að mynda eins flokks minnihlutastjórn.


Tengdar fréttir

Rauða blokkin er með góða forystu

Danir ganga að kjörborðinu næstkomandi miðvikudag. Allt bendir til þess að stjórnarskipti verði að loknum kosningunum og rauða blokkin fái góðan meirihluta.

Danir ganga að kjörborðinu

Kjörstaðir opnuðu klukkan sex í morgun að íslenskum tíma. Fyrstu tölur ættu að liggja fyrir um klukkan 21:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×