Bílaleigan Procar verður ekki svipt starfsleyfi en samgöngustofa mat tillögur fyrirtækisins að útbótum fullnægjandi. Í febrúar kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik að bílaleigan hefði átt við kílómetrastöðuna í bílum sem voru seldir.
Þetta kemur fram í fréttum RÚV en lögreglurannsókn á málinu er komin til héraðssaksóknara sökum umfangs málsins að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, hafði áður sagt í viðtali við RÚV að bílaleigan yrði svipt leyfinu ef brotin reyndust jafn alvarleg og á horfðist. Í byrjun maímánaðar upplýsti svo Samgöngustofa forsvarsmenn Procar um niðurstöðuna þar sem tillögur bílaleigunnar um úrbætur voru taldar fullnægjandi og ekki yrði aðhafst frekar í málinu.
Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en í kjölfarið var bílaleigunni vikið úr Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá ákvað Bílgreinasambandið að ráðast í gerð ökutækjaskrá þar sem hægt væri að kanna hvort tiltekinn bíll hafi verið til umráða hjá bílaleigu en í eigu fjármögnunarfyrirtækis.
