Lífið

Miður sín vegna um­mæla Whoopi Gold­berg um nektar­myndirnar

Sylvía Hall skrifar
Bella Thorne.
Bella Thorne. Vísir/Getty
Leikkonan Bella Thorne vakti athygli nú á dögunum þegar hún ákvað að birta nektarmyndir sem hún tók af sjálfri sér. Ástæða birtingarinnar var sú að hakkari hafði komist yfir myndirnar og hótaði að birta þær gegn hennar vilja.

Thorne deildi einnig skjáskotum af SMS-samskiptum sínum við hakkarann þar sem hann sést senda henni myndirnar og segist eiga sambærileg myndbönd af henni sem hann ætli að deila. Leikkonan tók þá málið í sínar hendur, tilkynnti hakkarann til alríkislögreglunnar og deildi myndunum sjálf.

Sjá einnig: Birti nektarmyndirnar sjálf eftir að hakkari hótaði að kúga hana með þeim

Ákvörðun Thorne hefur vakið mikla athygli og ræddu þáttastjórnendur í The View málið nú á dögunum. Leikkonan Whoopi Goldberg, einn þáttastjórnenda, gagnrýndi Thorne fyrir myndirnar og sagði frægt fólk ekki eiga að taka slíkar myndir.

„Um leið og þú tekur þessa mynd fer hún í skýið og er aðgengileg öllum hökkurum sem vilja, ef þú veist ekki af þessu vandamáli árið 2019, mér þykir það leitt en þú færð ekki að gera það,“ sagði Goldberg.





Thorne svaraði ummælum Goldberg á Instagram-síðu sinni þar sem hún sagðist vera miður sín vegna ummæla hennar. Hún hafi verið mikill aðdáandi Goldberg lengi og þetta hafi ekki verið viðbrögðin sem hún átti von á.

„Að skella skuldinni á stelpur fyrir það að hafa yfirhöfuð tekið myndina? Það er sjúkt og í fullri einlægni frekar ógeðslegt,“ skrifaði Thorne.

Þá spyr hún Goldberg hvort stelpur megi ekki senda kærustum sínum myndir af sér sem eru kynþokkafullar þegar þeir hafa að öllum líkindum séð það sem er á myndunum áður og hvort þær ættu að hræðast allt bara vegna þess að þær eru konur. 

„Ég er móðguð fyrir hönd allra þeirra sem hafa tekið kynþokkafulla mynd af sér. Ég er móðguð fyrir hönd Jennifer Lawrence sem fannst sér hafa verið nauðgað opinberlega. Ég er móðguð fyrir hönd allra þeirra sem hafa framið sjálfsvíg eftir að einhver lak nektarmyndum þeirra. Þín skoðun á þessu máli er hræðileg og ég vona að þú skiptir um skoðun í ljósi þess að þú ert í þætti að tala við ungar konur,“ skrifaði Thorne. 

Thorne upplýsti að hún hafi átt að koma í viðtal í þættinum en hún hafi skipt um skoðun þar sem hún vilji ekki vera „skotin í kaf af hópi af eldri konum“. Hún birti síðar myndband af sér þar sem hún brotnaði niður vegna ummæla Goldberg.

„Ég ætla ekki að ljúga því, mig langar að segja að mér líður frekar ógeðslega,“ segir Thorne í myndbandinu.

„Ég get rétt ímyndað mér alla krakkana sem hafa lent í því að myndirnar þeirra eru birtar og þau fremja sjálfsvíg í kjölfarið. Þú ert svo klikkuð fyrir að hafa svona hræðilegar hugmyndir um svona ömurlegar aðstæður,“ sagði hún.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.