Innlent

Frumvarp um kynrænt sjálfræði samþykkt á þingi

Jakob Bjarnar skrifar
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir formaður Trans Íslands-félagsins sem barist hefur mjög fyrir þessu máli. Ugla tók virkan þátt í gerð frumvarpsins.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir formaður Trans Íslands-félagsins sem barist hefur mjög fyrir þessu máli. Ugla tók virkan þátt í gerð frumvarpsins. FBL/Stefán
Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði var samþykkt á Alþingi nú fyrir stundu. Frumvarpið komst óvænt í sviðsljósið á dögunum þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokks krafðist þess að það yrði ekki afgreitt fyrr en á næsta þingi. Var það liður í samkomulagi milli Miðflokks og ríkisstjórnarinnar svo ganga megi frá þinglokum.

Samkvæmt þessu virðist sem Miðflokkurinn hafi fallið frá þessari kröfu sinni. 45 greiddu atkvæði með frumvarpinu, fimmtán voru fjarstaddir en þeir Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson, þingmenn Miðflokksins, sátu hjá. Aðrir þingmenn Miðflokksins voru fjarverandi.

Frumvarpið gengur út á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt. Það þýðir að fólk getur farið og breytt kyni sínu í Þjóðskrá, og skilríkjum sínum öllum þar með án þess að fyrir liggi opinbert samþykki. Viðkomandi einstaklingur þarf ekki að hafa undirgengist skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð til að breyta því hvernig sá er skráður.

Lögin kveða á um rétt einstaklinga til þess að „skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi,“ svo vitnað sé í frumvarpið.

Þá felur frumvarpið einnig í sér að þriðja kynið er nú lögleitt: Hlutlaus skráning kyns er nú heimil. Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×