Fjölgunin er enn ein staðfestingin á þeirri ólgu sem nú ríkir í samskiptum Írans og Bandaríkjanna, ekki síst eftir að Bandaríkjaforseti ákvað að draga þjóð sína út úr kjarnorkusamningnum sem gerður var við Írani og fleiri kjarnorkuríki árið 2015. Þá tilkynntu Íranir í gær að þann 27. júní muni landið ná að fara yfir það hámarksmagn af auðguðu úrani í varabirgðum sínum sem tilgreint er í fyrrnefndum samningi, sem er talið til þess fallið að auka enn á spennuna.
Ekki bætti árás á tvö flutningaskip í Ómanflóa í liðinni viku úr skák. Bandaríkjamenn og Bretar segja Írani hafa staðið að baki árásunum en meðfram tilkynningunni um hermannafjölgunina í gær birti bandaríska varnarmálaráðuneytið jafnframt nýjar myndir sem það segir renna stoðum undir ásakanirnar. Írönsk stjórnvöld hafa hins vegar þvertekið fyrir aðkomu þeirra að árásunum.
Önnur fjölgunin á mánuði
Hermönnunum eitt þúsund er ætlað að auka öryggi annarrs herafla sem nú þegar er í Austurlöndum nær. Í tilkynningunni er þó ekkert sagt til um hvar nýju hermönnunum verður komið fyrir. Ekki eru nema örfáar vikur síðan að Bandaríkjaforseti, Donald Trump, greindi frá því að fjölgað yrði í herliði Bandaríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs um 1500 hermenn.Þrátt fyrir ásakanirnar og fjölgun hermanna segir utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, að ríki sitt vilji forðast vopnuð átök við Íran. Bandaríkin vildu þó ekki útiloka neitt í þeim efnum.
Fyrrnefndu myndirnar sem birtar voru í gær eiga meðal annars að sýna íranska byltingarverði fjarlægja sprengju af öðru flutningaskipanna, sem og mynd af byltingarvörðum sigla frá vettvangi árásarinnar. Þar að auki er ein myndanna sögð sýna skemmdir sem unnar voru á öðru skipinu, að því er virðist eftir sprengingu. Myndirnar má sjá hér að ofan.