Árás var gerð á tvo olíuflutningaskip í Ómanflóa á fimmtudag nærri Hormússundi, þar sem Persaflói tengist Ómanflóa.
Skipin voru frá Noregi og Japan. Gerð var árás á fjögur önnur skip í síðasta mánuði. Enginn fórst í árásunum.
Bandaríski herinn hefur birt myndband sem er sagt sýna íranska sérsveitarliða fjarlægja tundurdufl sem festist á japanska olíuskipinu en sprakk ekki. Íranir neita aðild að málinu.
Forstjóri japanska félagsins sem gerir út skipið hefur eftir áhöfn þess að eitthvað fljúgandi hafi hæft það.
Ásakanir Bandaríkjamanna á hendur Írönum eru settar í samhengi við versnandi samskipti þjóðanna í valdatíð Donald Trumps.

Deilt um málið í breskum stjórnmálum
Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, kennir Írönum um og gagnrýnir leiðtoga bresku stjórnarandstöðunnar fyrir hræðsluáróður í garð Bandaríkjamanna.„Maður hefði haldið að það væri býsna augljóst hverjir bera ábyrgð á þessu þegar við höfum myndbandsupptökur sem sýna hvað Íranir hafa verið að gera. En, nei, fyrir Jeremy Corbyn er það allt Bandaríkjamönnum að kenna og þetta er sami maðurinn, vel á minnst, sem neitaði að fordæma Pútín eftir eiturárásirnar í Salisbury,“ segir Hunt.
Sameinuðu þjóðirnar reyna að draga úr spennu og hvetja til óháðrar rannsóknar.
„Við teljum mjög mikilvægt að forðast meiriháttar átök við Persaflóa,“ segir Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.