Golf

Tiger vill berjast um risatitla næstu tíu árin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tiger á æfingu fyrir helgina.
Tiger á æfingu fyrir helgina. vísir/getty
Kylfingurinn Tiger Woods, sem hefur unnið fimmtán risamót á ferlinum, vonast til þess að hann geti spilað í tíu ár til viðbótar og unnið fleiri risatitla.

Tiger verður á meðal keppenda á US Open sem hefst í Kaliforníu á morgun en hinn 43 ára gamli Tiger batt enda á ellefu ára eyðimerkurgöngu með sigri á Masters í apríl.

Þessi magnaði kylfingur hefur gengið í gegnum margt og mikið undanfarin ár en hann vonast til þess að hann sé kominn á beinu brautina. Hann vonast til að geta spilað næstu tíu árin.







„Hugsanlega ef ég spila áfram í tíu ár, þá næ ég 40 risamótum. Spurningin er hvort að ég get haldið mér heilsuhraustum og sterkum eftir allt það sem líkami minn hefur gengið í gegnum,“ sagði Woods við blaðamenn í gær.

„Þar þarf ég hjálp frá þjálfurum mínum og sjúkraþjálfurum og vonandi gengur það eftir,“ en Woods hefur verið í fínu formi það sem af er þessu ári og spilað gott golf.

„Í þessari viku líður mér eins og ég sé að þokast í rétta átt. Ég þarf einn dag í viðbót til þess að gera mig tilbúinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×